Enski boltinn

Markvarðarþjálfari Man. United var að skoða Neuer um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Neuer.
Manuel Neuer. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Það bendir margt til þess að Manchester United ætli að reyna að fá þýska landsliðsmarkvörðinn Manuel Neuer til þess að taka við stöðu hollenska markvarðarins Edwin van der Sar þegar hann leggur skóna á hilluna í vor.

Eric Steele, markvarðarþjálfari Manchester United, var í Þýskalandi um helgina þar sem hann fylgdist með Manuel Neuer spila með liði sínu Schalke á móti Bayer Leverkusen.

Neuer sem er 24 ára gamall, sló í gegn á HM í Suður-Afríku síðasta sumar þegar hann kom óvænt inn í byrjunarlið þýska landsliðsins eftir að René Adler meiddist og Robert Enke framdi sjálfsmorð.

René Adler, markvörður Bayer Leverkusen og Maarten Stekelenburg, markvörður Ajax koma báðir líka til greina en eitt er víst að Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, mun kaupa nýjan markvörð á Old Trafford næsta sumar.

Manuel Neuer hefur fengið á sig 33 mörk og haldið níu sinnum hreinu í 27 leikjum í þýsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. Í Meistaradeildinni hefur hann fengið á sig 5 mörk í átta leikjum og haldið marki sínu þrisvar sinnum hreinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×