Körfubolti

NBA: Lakers vann Phoenix eftir þríframlengdan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant fagnar í nótt.
Kobe Bryant fagnar í nótt. Mynd/AP
Los Angeles Lakers er áfram á góðu skriði í NBA-deildinni í körfubolta en þurfti þrjár framlengingar til þess að landa sigri á móti Phoenix Suns í frábærum leik í nótt. Lakers hefur unnið 13 af 14 leikjum sínum eftir Stjörnuleikinn en Suns-liðið er á góðri leið með því að missa af úrslitakeppninni.

Kobe Bryant skoraði 42 stig í 139-137 sigri Lakers en það er það mesta sem hann hefur skorað í einum leik á tímabilinu. Ron Artest var líka mikilvægur í lokin því hann skoraði 5 af 18 stigum sínum á síðustu tveimur mínútunum í síðustu framlengingunni.

Lamar Odom var með 29 stig og 16 fráköst og Pau Gasol skoraði 24 stig og tók 13 fráköst. Gasol tryggði Lakers þriðju framlenginguna með því að jafna leikinn á vítalínunni 2,5 sekúndum fyrir lok annarrar framlengingu. Framlög þeirra Odom og Gasol voru mikilvæg ekki síst þar sem Andrew Bynum tók út seinni leikinn í sínu tveggja leikja banni.

Mynd/AP
Channing Frye skoraði 32 stig og tryggði Phoenix aðra framlengingu með því að skora úr þremur vítum þegar aðeins 1,1 sekúnda var eftir. Steve Nash var með 19 stig og 20 stoðsendingar en gat ekki komið í veg fyrir að Phoenix tapaði í fimmta sinn í síðustu sjö leikjum. Marcin Gortat var með 24 stig og 16 fráköst.

„Við höfðum þetta að lokum. Ég var samt að vonast að komast heim fyrr enda löngu komið fram yfir minn svefntíma," sagði Phil Jackson, þjálfari Los Angeles Lakers í léttum tón eftir leikinn.

Derrick Rose var með 30 stig og 10 stoðsendingar þegar Chicago Bulls vann öruggan 114-81 sigur á Atlanta Hawks. Chicago skoraði 72 stig í fyrri háfleiknum þar af 41 stig í öðrum leikhluta og allt byrjunarliðið sat á bekknum í fjórða leikhlutanum. Luol Deng skoraði 27 stig fyrir Bulls-liðið en liðið er búið að vinna 10 af síðustu 11 leikjum sínum.

Jeff Teague skoraði 17 af 20 stigum sínum í fjórða leikhlutanum en Atlanta kastaði inn hvíta handklæðinu fyrir lokaleikhlutann þegar staðan var orðin 98-60 yfir Chicago og hvildi byrjunarliðið sitt. Josh Smith og Al Horford skoruðu báðir 14 stig.

Mynd/AP
Gerald Wallace skoraði 28 stig þegar Portland Trail Blazers vann öruggan 111-76 heimasigur á Washington Wizards. LaMarcus Aldridge skoraði 22 stig í þremur leikhlutum og Nicolas Batum var með 22 sitg og 12 fráköst.

Jordan Crawford skorðai 12 stig fyrir Washington sem er búið að tapa sjö útileikjum í röð og hefur aðeins unnið 1 af 32 útileikjum tímabilsins.

Úrslit allra leikja í NBA-deildinni í nótt:
Mynd/AP
Atlanta Hawks-Chicago Bulls 81-114

Portland Trail Blazers-Washington Wizards 111-76

Los Angeles Lakers-Phoenix Suns 139-137 (þríframlengt)

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×