Körfubolti

Pétur: Snæfell ekki átt nein svör við okkar leik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Pétur ásamt Ívari Ásgrímssyni, aðstoðarmanni sínum.
Pétur ásamt Ívari Ásgrímssyni, aðstoðarmanni sínum.
Pétur Ingvarsson, þjálfari Hauka, er kokhraustur fyrir oddaleik sinna manna gegn Íslandsmeisturum Snæfells í Stykkishólmi í kvöld.

"Við ætlum okkur að vinna. Það er ekkert flókið. Það er samt pressa á okkur rétt eins og þeim. Það er samt munur á pressunni á liðunum. Það er jákvæð pressa á okkur en neikvæð á þeim enda verður allt brjálað ef þeir tapa," sagði Pétur ákveðinn en hann þakkar Snæfelli fyrir sinn hlut í góðu gengi Hauka í rimmunni.

"Þeir hafa sýnt okkur að við getum unnið þá. Þeir hafa ekki haft nein svör við því sem við erum að gera. Ef þeir telja sig eiga einhver svör fyrir kvöldið þá er ég klár með fleiri lausnir. Nú er bara að hitta réttu skotunum og lemja á réttu mönnunum."

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, hefur verið óánægður með hugarfar sinna manna í leikjunum og finnst þeir vera að pirra sig fullmikið.

"Þeir eru pirraðir af því okkur tekst á hægja á leikjunum. Snæfell er lið sem vill skjóta mikið og þeir eru ekki að fá þessi skot gegn okkur."

Hermt var að yfirlýsingar Hlyns Bæringssonar, fyrrum leikmanns Snæfells, um að hlaupa í kringum blokkina sína á nærbuxunum ef Haukar vinna einvígið hefðu kveikt í Hafnfirðingum. Pétur segir það ekki vera alveg rétt.

"Okkur er alveg sama hvað Hlynur gerir. Hann má sprella eins og hann vill. Við einbeitum okkur að því að vinna leikinn."

Körfuknattleiksdeild Hauka er með uppskeruhátíð á föstudaginn og sumum finnst það benda til þess að þeir hafi ekki mikla trú á sigri í kvöld.

"Það var löngu búið að plana þetta. Veislan fer fram og við mætum þá bara og fögnum því að vera komnir áfram," sagði Pétur léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×