Körfubolti

Guðjón: Við eiginlega stálum sigrinum

Stefán Árni Pálsson í Keflavík skrifar
Guðjón Skúlason var nokkuð æstur á hlíðarlínunni í kvöld - Mynd/ Valli
Guðjón Skúlason var nokkuð æstur á hlíðarlínunni í kvöld - Mynd/ Valli
„Þetta var rosaleg spenna hérna í lokin og við eiginlega stálum sigrinum,“ sagði Guðjón Skúlason, þjálfari Keflvíkinga, eftir sigurinn í kvöld. Keflavík er komið í undanúrslit Iceland-Express deild karla eftir að hafa unnið frækin sigur, 95-90, gegn ÍR í framlengdum oddaleik.



„ÍR-inga léku virkilega vel í kvöld og eiga hrós skilið. Þegar leið á leikinn þá fórum við að spila þá vörn sem okkur líkar best við og þá fóru hlutirnir að gerast,“ sagði Guðjón.



„Leikurinn þróaðist ekki alveg eins og við vildum og ég var hreinlega með hjartað í buxunum nánast allan tíman. Þegar á reyndi þá sýndu strákarnir mikinn karakter og náðu að koma þessu í framlengingu. Við hófum framlenginguna af miklum krafti með því að setja átta stig í röð sem var hreinlega of mikið fyrir ÍR,“ sagði Guðjón.



Sigurður Þorsteinsson, leikmaður Keflvíkinga, var frábær á lokakaflanum og kom með þann neista í heimamenn sem þeim vantaði sárlega. Sigurður fór aftur á móti útaf með fimm villur í framlengingunni en það kom ekki að sök.



„Ég er gríðarlega ánægður með ákveðna menn sem stigu upp hérna í lokin bæði varnarlega og sóknarlega og sýndu hvað í þeim bjó. Sigurður var frábær í kvöld og sýndi hversu mikilvægur hann er, en ég hafði engar áhyggjur þegar hann fékk sína fimmtu villi, við erum með það mikla breidd,“ sagði Guðjón.



Keflvíkingar mæta KR í undanúrslitum sem mun án efa vera frábært einvígi.



„Það verður svakalegt einvígi en KR-ingar eru að flestra mati besta liðið á Íslandi í dag, þannig að það býður okkur virkilega erfitt verkefni,“ sagði Guðjón Skúlason ánægður í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×