Enski boltinn

Rio Ferdinand í sérmeðferð í Þýskalandi - gæti náð Chelsea-leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rio Ferdinand og Wayne Rooney.
Rio Ferdinand og Wayne Rooney. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, vonast eftir því að fá góðar fréttir af varnarmanninum Rio Ferdinand þegar hann kemur til baka úr sérmeðferð frá Þýskalandi. United-menn stefna á það að Rio nái seinni leiknum á móti Chelsea í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Ferdinand hefur ekkert spilað í sjö vikur vegna kálfameiðsla og fyrr í þessum mánuði sagði Sir Alex að hann óttaðist að Rio yrði ekkert meira með á tímabilinu.

Ferdinand flaug hinsvegar til Þýskalands þar sem að hann hitti sérfræðinginn Hans-Wilhelm Müller-Wohlfahrt sem vinnur fyrir Bayern Munchen. Müller-Wohlfahrt hefur aðstoðað menn eins og Steven Gerrard, Ronaldo og Usain Bolt svo einhverjir séu nefndir.

Müller-Wohlfahrt ætlar víst að sprauta Ferdinand í bakið og leysa þar með kálfavandamál Rio en Ferdinand meiddist í leik á móti Aston Villa sem fram fór 1. febrúar.

Ferguson líkti meiðslum Rio Ferdinand við þau hjá Byran Robson árið 1990 þegar hann var fjóra mánuði frá vegna kálfameiðsla. Hann sagði jafnframt að það væri enginn press á að láta Rio spila fyrr en hann sé búinn að ná sér hundrað prósent af þessum meiðslum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×