Körfubolti

Teitur: Amoroso öskraði "fuck you" á mig

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Teitur Örlygsson.
Teitur Örlygsson.
Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, þvertekur fyrir að hafa skipt sér af leikmönnum Snæfells í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Iceland Express-deildarinnar. Þjálfari Snæfells, Ingi Þór Steinþórsson, sakaði hann um það í viðtali við Vísi fyrr í dag en Teitur segir Inga fara með staflausa stafi. Hann segist ekki hafa hreytt neinum ónótum í Ryan Amoroso, leikmann Snæfells, né aðra.

„Ryan er alltaf brjálaður út í mig og ég veit ekki af hverju. Ég sagði ekki orð við hann allan leikinn svo það sé á hreinu. Svo heyrði ég eftir leikinn að hann hefði hlaupið fram hjá mér á bekknum og öskrað „fuck you" á mig. Það fór reyndar fram hjá mér en þetta var mér tjáð eftir leik," sagði Teitur.

„Eftir leikinn förum við í raðir til að þakka fyrir leikinn eins og venjulega. Það heilsuðu mér allir en þegar kom að honum hreytti hann út úr sér: „dont´t touch me" eða ekki snerta mig. Hann var með hroka og stæla sem ég sætti mig ekki við. Þá rifumst við aðeins."

Þetta er ekki í fyrsta skipti í vetur sem það slær í brýnu á milli Teits og Amoroso.

„Fyrr í vetur þá barði hann í hausinn á Kjartan Atla eftir að það var búið að flauta. Þá vildi ég láta henda honum út en það var ekki gert," sagði Teitur en það er augljóslega einhver kergja á milli liðanna.

„Mér sýnist ég vera kominn undir skinnið hjá þeim. Þeir eru í það minnsta að hugsa um eitthvað annað en leikmennina mína. Ég hef oft lent í svona og finnst þetta gaman. Ég er góður í þessu. Ég og Nick Bradford félagi minn kunnum alveg að spjalla," sagði keppnismaðurinn Teitur léttur en honum leiðist greinilega ekki hasarinn sem fylgir úrslitakeppninni.

"Þetta er samt stormur í vatnsglasi að mínu mati. Það er eitthvað óeðlilegt ef menn munnhögvast ekki aðeins í úrslitakeppninni. Þetta er enginn KFUM-fundur og mönnum á ekki að standa á sama."

Teitur segir að leikurinn í kvöld muni segja mikið um karakter síns liðs.

"Partur af því að verða betra lið er að vinna leik númer tvö. Mæta í hann tilbúinn. Það er ekki sjálfgefið. Ég þekki það vel sem leikmaður á sínum tíma. Menn slaka á eftir sigur og missa aðeins einbeitinguna. Kúnstin er því að mæta klár í þennan leik. Ég vona að við gerum það."

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19.15 í Garðabæ og verður í beinni á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir

Nonni Mæju: Þurfum að skrifa nýja sögu

Jón Ólafur Jónsson, leikmaður Snæfells, var að vonum daufur í dálkinn eftir annað tap Snæfells í röð gegn Stjörnunni í undanúrslitum Iceland Express-deildar karla.

Stjarnan þarf aðeins einn sigur til viðbótar gegn meisturunum

Stjarnan þarf aðeins einn sigur til viðbótar gegn Íslandsmeistaraliði Snæfells til þess að komast í úrslitarimmuna um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla. Stjarnan sigraði Snæfell 93-87 í Ásgarði í kvöld og er staðan 2-0 fyrir Stjörnuna í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar. Jovan Zdravevski fór á kostum í liði Stjörnunnar og skoraði hann 38 stig og tók að auki 10 fráköst.

Fannar: Við getum unnið titilinn

Stjörnumaðurinn Fannar Helgason frá Ósi segir að það sé mikið sjálfstraust í liði Stjörnunnar og hann segir liðið geta farið alla leið á þessu tímabili. Stjarnan vann Snæfell í kvöld og er komið í 2-0 í undanúrslitarimmu liðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×