Körfubolti

Keflvíkingar aldrei í vandræðum með Grindvíkinga

Elvar Geir Magnússon skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson. Mynd/Daníel
Keflavík vann fimmtán stiga sigur á Grindavík, 86-71, í Toyota-höllinni í Keflavík í lokaumferð Iceland Express deildar karla í kvöld. Liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn og að keppa um annað sætið í deildinni við KR.

Heimamenn komu miklu mun ákveðnari til leiks og áhorfendur voru enn að koma sér almennilega fyrir í sætum sínum þegar munurinn var orðinn tíu stig. Sigurður Þorsteinsson og Magnús Þór Gunnarsson fóru fyrir Keflavíkurliðinu sem leiddi með ellefu stiga mun eftir fyrsta fjórðung og höfðu 20 stigum yfir í hálfleik, 50-30.

Keflvíkingar hleyptu Grindvíkingum ekkert nálægt sér en það var þó hiti í mönnum og kom til smá handalögmála í lok þriðja leikhluta rétt til að minna fólk á að um grannaslag væri að ræða. Þegar Grindvíkingar söxuðu forskotið í síðasta leikhlutanum settu heimamenn aftur í gírinn og unnu sigur sem aldrei var í hættu. Margir lykilmenn Grindvíkinga höfðu ansi hægt um sig í kvöld.

Sigurður Gunnar Þorsteinsson skoraði 25 stig fyrir Keflavík og Magnús Þór Gunnarsson var með 17 stig þar af 11 þeirra á þriggja mínútna kafla í fyrsta leikhlutanum þegar Keflavík breytti stöðunni úr 4-6 í 19-6.

Nick Bradford skoraði aðeins tvö stig á móti sínum gömlu félögum en Ólafur Ólafsson var stigahæstur með 15 stig.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×