Körfubolti

Pavel: Mikilvægur sigur fyrir sjálfstraustið

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Pavel Ermolinskij.
Pavel Ermolinskij. Mynd/Vilhelm
„Þetta var frábær sigur og það hefði verið slæmt fyrir sjálfstraustið að fara inn í úrslitakeppnina með þrjú töp á bakinu. Andinn í hópnum hefði líklega ekki verið góður ef við hefðum tapað þessum leik,“ sagði Pavel Ermolinskij eftir frábæran sigur KR gegn Snæfelli í Iceland Express deild karla í kvöld, 116-93.

Allt annað var að sjá til KR í kvöld en liðsins sem tapaði fyrir ÍR með 29 stigum í síðustu viku. Pavel telur að sá ósigur muni jafnvel hafa góð áhrif á liðið í úrslitakeppninni.

„Eftir að við urðum bikarmeistarar þá urðum við kannski svolítið kærulausir og héldum að sigrarnir kæmu sjálfkrafa. Það var spennufall hjá okkur þar sem menn duttu niður og hættu að vinna vinnuna sína. Þetta var kannski skellurinn sem við þurftum til að vekja upp af værum blundi.“

Með sigrinum í kvöld tryggði KR sér annað sætið í deildinni og mun mæta Njarðvík í 8-liða úrslitum. Pavel býst við spennandi rimmu gegn Njarðvíkingum.

„Okkur hlakkar til að byrja úrslitakeppnina. Það verður að segjast að fyrir tímabilið hefði Njarðvík ekki verið draumaandstæðingurinn í 8-liða úrslitum. Mér sýnist þeir vera búnir að finna réttu blönduna og er ekki lið sem á að vera í sjöunda sæti í deildinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×