Fótbolti

Stefán samdi við Lilleström

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stefán í leik með íslenska landsliðinu.
Stefán í leik með íslenska landsliðinu.
Stefán Gíslason hefur samið við norska félagið Lilleström og mun hann spila með liðinu til 1. ágúst næstkomandi, að minnsta kosti.

Stefán er aðeins þrítugur en á engu að síður langan feril að baki. Hann hefur leikið á Íslandi, Danmörku, Austurríki og sem unglingur með Arsenal á Englandi.

Lilleström er fjórða norska félagið sem hann spilar með en hann var áður hjá Lyn, Strömsgodset og Viking en hann var hjá síðastnefnda félaginu sem lánsmaður frá Bröndby síðastliðið sumar.

Stefán var keyptur til Bröndby frá Lyn árið 2007 og naut velgengni hjá félaginu fyrst um sinn. En þegar nýr þjálfari tók við liðinu var Stefán settur út í kuldann og spilaði hann síðast með liðinu í desember árið 2009.

Hann stóð sig vel hjá Viking en aðilar náðu ekki saman um áframhaldandi samning. Stefán hefur því ekkert spilað síðan í júlí á síðasta ári en verður nú aftur mættur í slaginn þegar að keppni hefst í Noregi á ný.

Til stóð fyrr í vetur að hann myndi ganga til liðs við Aberdeen í Skotlandi en ekkert varð að því þar sem að forráðamenn Bröndby gleymdu að skila inn gögnum um starfslokasamning milli Stefáns og félagsins áður en félagaskiptaglugginn lokaði í lok janúarmánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×