Körfubolti

Ólafur: Spiluðum betri vörn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. Mynd/Stefán
Ólafur Ólafsson sýndi frábæra takta í kvöld og kórónaði góðan leik þegar hann stal boltanum í blálokin og tryggði sínum mönnum í Grindavík sigur á Stjörnunni með tilþrifamikilli troðslu.

„Það var lagt upp með að pressa á hann og brjóta á honum. Við áttum eina villu til að gefa en ég sá svo tækifærið til að stela af honum boltanum og klára þetta almennilega,“ sagði hann við Vísi eftir leikinn.

„Mér fannst við spila betri varnarleik en þeir og við náðum að halda þeim ágætlega niðri. Við gleymdum okkur á tímabili og misstum aðeins einbeitinguna. En við náðum að loka á þá í síðustu þremur sóknunum þeirra og klára þannig leikinn.“

Stjörnumenn börðust þó mikið í leiknum og gáfu Grindvíkingum lítið svigrúm til að stinga af. „Stjarnan er með hörkulið og svona er þetta í úrslitakeppninni. Þetta er harka út í eitt og þannig er það skemmtilegast. Það var mjög mikilvægt að byrja vel í þessu einvígi og vinna fyrsta leikinn en mér hefur reyndar sýnst að fáir hafa trú á okkur. Menn höfðu ef til vill áhyggjur af því að við værum án leikstjórnanda en okkur tókst ágætlega að bera boltann upp og klára þetta.“

Hann hrósaði einnig Nick Bradford sem átti fínan leik í kvöld. „Hann skoraði að ég held tvö stig í síðasta leik en er með tólf í kvöld. Hann var að skora mikilvægar körfur og spila vel í vörn. Ég var ánægður með hann og fleiri í okkar liði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×