Körfubolti

Teitur: Besti leikurinn okkar á tímabilinu

Stefán Árni Pálsson í Ásgarði skrifar
Sean Burton var með fjórtán stoðsendingar í kvöld.
Sean Burton var með fjórtán stoðsendingar í kvöld. Mynd/Valli
„Þessi sigur var aldrei í hættu og líklega besti leikur okkar á tímabilinu," sagði Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, kampakátur eftir sigurinn í kvöld. Stjarnan bar sigur úr býtum gegn Íslandsmeisturum Snæfells, 94-80, í 20. umferð Iceland-Express deild karla í kvöld.

„Við misstum aðeins dampinn í síðasta leik og vorum ákveðnir í kvöld að láta það ekki koma fyrir aftur.

„Ég bjóst nú við þeim þó nokkuð grimmari varnarlega og við fengum að spila okkar leik nokkuð óáreittir. Svo þegar lýður á leikinn eflist sjálfstraustið og þá er erfitt að stöðva okkur."

„Þetta er frábært skotlið og um leið og við gáfum þeim örlítið pláss þá fóru þeir að hitta vel, en sem betur fer náðum við að halda út með góðan varnarleik stórann hluta af leiknum," sagði Teitur.

„Ég held að við höfum bara mætt aðeins stemmdari og tilbúnari til leiks. Snæfellingar voru aðeins á hælunum í byrjun og það náðum við að nýta okkur og eftir var þetta aldrei spurning. Það var gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að halda einbeitingu allan leikinn en þetta var klárlega besti leikurinn hjá Justin Shouse á þessu tímabili og vonandi er þetta það sem koma skal hjá honum."

Stjarnan tapaði illa gegn ÍR í síðustu umferð og það var allt annað að sjá til liðsins í kvöld.

„Ég veit ekki hvað gerist á þessari viku hjá okkur. Ef ég vissi það þá myndum við vinna alla leiki," sagði Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar, virkilega ánægður eftir leikinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×