Körfubolti

Snæfell deildarmeistari og KR steinlá fyrir ÍR

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells.
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells.
Snæfell er deildarmeistari í Iceland Express deild karla eftir sigur á heimavelli gegn Hamar, 76-64. Á sama tíma steinlá KR fyrir ÍR í Seljaskóla, 124-94, og þar með er ljóst að Snæfell er deildarmeistari.

Mikil spenna var í leik Snæfells og Hamar framan af enda leikurinn mikilvægur fyrir bæði lið. Hamar er í harðri fallbaráttu og verður að treysta á að Fjölnir tapi fyrir Grindavík á morgun til að halda lífi sínu í deildinni.

Pálmi Freyr Sigurgeirsson var stigahæstur í liði Snæfells með 16 stig og Jón Ólafur Jónsson skoraði 13 stig og tók 16 fráköst. Hjá Hamar var Devin Sweetney atkvæðamestur með 24 stig og 8 fráköst.

KR-ingar náðu sér aldrei á strik gegn ÍR í Seljaskóla. ÍR-ingar kjöldrógu KR-inga og unnu leikinn með 29 stigum, 124-95. Þetta er annar tapleikur KR í röð sem nú getur best orðið í öðru sæti deildarinnar.

James Bartolotta var atkvæðamestur í liði ÍR með 33 stig og sex stoðsendingar. Eiríkur Önundarson skoraði 24 stig og Kelly Biedler skoraði 22 stig og tók 12 fráköst. Marcus Walker dró vagninn hjá KR og skoraði 31 stig. Ljóst er að fjarvera Fannars Ólafssonar hefur veikt KR-liðið nokkuð.

Fyrir vestan vann KFÍ nokkuð óvæntan sigur á Njarðvík, 102-97 í spennandi leik. Richard McNutt var stigahæstur hjá heimamönnum með 24 stig og 9 fráköst en hjá Njarðvíkingum var það Jóhann Ólafsson sem lék best og skoraði 31 stig auk þess að taka 8 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×