Handbolti

Björgvin Páll: Þjóðverjarnir eru skíthræddir við okkur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson fór á kostum með íslenska landsliðinu gegn því þýska í kvöld. Hann varði 23 skot í leiknum og þar af 14 í fyrri hálfleik.

"Þetta var frábær leikur og geðveik stemning í Höllinni. Við vorum vel stemmdir enda vildum við svara fyrir tapið á HM. Við sýndum mikinn karakter og lokatölur gefa ekki rétta mynd af leiknum því við spiluðum ógeðslega vel í dag. Það var varla veikan punkt að finna á okkar leik," sagði Björgvin Páll.

"Tapið í Svíþjóð svíður enn og það kannski minnkaði aðeins eftir þennan leik. Það er annar leikur um helgina og við verðum að halda okkar vinnu áfram. Maður sá það á augunum á þeim að þeir eru skíthræddir við okkur og við verðum að nýta okkur það," sagði Björgvin brattur.

Björgvin lifir sig mikið inn í leikina og fagnaði hverri einustu markvörslu með stæl í kvöld.

"Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri. Það er engu líkt að spila fyrir framan fulla höll. Geðshræringin er mikil þegar fáninn fer á loft í þjóðsöngnum," sagði Björgvin en hvað með seinni leikinn?

"Við getum skemmt ansi mikið með því að klúðra þeim leik. Við erum með andlegt forskot eftir þennan sigur og nú er úrslitaleikur fram undan."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×