Körfubolti

Nick Bradford staðfestir að hann sé á leiðinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nick Bradford.
Nick Bradford. Mynd/Daníel
Nick Bradford hefur staðfest það á twitter-síðu sinni að hann sé búinn að semja við Grindvíkinga í Iceland Express deild karla í körfubolta og muni klára tímabilið með liðinu. Bradford leysir af bakvörðinn Kevin Sims sem var látinn fara fyrr í dag.

Bradford þekkir vel til í Grindavík en hann var aðalmaðurinn á bak við það þegar liðið fór alla leið í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn árið 2009 og tapaði síðan með minnsta mun fyrir KR í DHL-höllinni. Bradford spilaði þá við hlið Helga Jónasar Guðfinnssonar en Helgi Jónas þjálfar nú Grindavíkurliðið.

Grindvíkingar þurftu nauðsynlega á nýju blóði að halda en þeir hafa tapað síðustu fjórum leikjum sínum í Iceland Express deildinni og töpðuðu með 22 stiga mun á móti KR í bikaúrslitaleiknum um síðustu helgi.

Bradford hefur leikið með öllum Suðurnesjaliðunum, Keflavík, Njarðvík og Grindavík, á síðustu tveimur tímabilum en hann spilaði bæði fyrir Njarðvík og Keflavík á síðustu leiktíð. Bradford var með 20,4 stig, 6,5 fráköst og 3,2 stoðsendingar að meðaltali í leik með Grindavík 2008-2009 en í úrslitakeppninni hækkaði hann meðalskor sitt upp í 23,7 stig í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×