Innlent

Leita að Icesave-peningunum - Ólafur og Steingrímur tala ekki saman

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.
„Þetta eru eins og hverjir aðrir peningar, sumir fóru til Lúxemborg á meðan aðrir enduðu uppi í Breiðholti," sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í viðtali við Sölva Tryggvason á Skjá Einum í kvöld, þegar hann var spurður hvert Icesave peningarnir hefðu farið.

Steingrímur sagði peningana hafa farið í gegnum æðakerfi bankans eins og hann orðaði það, en skilanefndir með sína sérfræðinga væru að rannsaka það hvert peningarnir hefðu farið.

„Og jafnvel undirbúa aðgerðir til þess að sækja þá," sagði Steingrímur og vitnaði í fréttir af Stöð 2 um málið.

Hann sagði að þjóðin yrði upplýst um það hvert peningarnir færu jafnóðum og þinginu bærust þær upplýsingar.

Spurður út í meintar hótanir sem Ólafur Ragnar Grímsson forseti hafði á orði í viðtali í Silfri Egils þar síðasta sunnudag, sagðist Steingrímur ekki tala um trúnaðarsamtöl sem hann hefði átt við forsetann síðastliðinn ár.

Þá sagði Ólafur Ragnar að ráðamenn hefðu hótað afsögnum og jafnvel að ríkisstjórnin færi frá yrði Icesave-samkomulagið ekki samþykkt.

Fram kom að Steingrímur og Ólafur Ragnar hafa ekki rætt saman síðan forsetinn synjaði lögunum um Icesave staðfestingar í janúar á síðasta ári. En þeir hittust áður á einkafundum. Slíkir fundir hafa ekki verið haldnir síðan þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×