Körfubolti

Ingibjörg tryggði Keflavík sigur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Daníel
Ingibjörg Jakobsdóttir var hetja Keflvíkinga er liðið vann KR í Iceland Express-deild kvenna í kvöld, 63-61.

Leikurinn var æsispennandi en KR-ingar komust yfir þegar að Chazny Morris setti niður þriggja stiga körfu þegar tólf sekúndur voru til leiksloka og kom KR yfir, 61-60.

Keflvíkingar héldu í sókn og skoraði Ingibjörg Jakobsdóttir sigurkörfu leiksins með því að setja niður annað þriggja stiga skot um leið og leiktíminn rann út.

Þessi lið mættust einnig í bikarúrslitunum um síðustu helgi og þá höfðu Keflvíkingar einnig betur.

Leikurinn í dag var spennandi allt fram á síðustu mínútu en KR-ingar, rétt eins og um helgina, höfðu yfirhöndina í hálfleik, 28-25.

Jafnræði var með liðunum þar til að Keflavík náði að síga fram úr með 14-4 spretti í fjórða leikhluta. KR-ingar náðu þó að minnka muninn í tvö stig, 60-58, þegar ein mínúta var til leiksloka. Síðasta mínútan var æsispennandi eins og áður segir.

Jacquline Adamshick átti stórleik fyrir Keflavík og skoraði 31 stig í leiknum auk þess sem hún tók 21 frákast. Pálína Gunnlaugsdóttir kom næst hjá Keflavík með níu stig en Ingibjörg skoraði átta.

Stigaskorið dreifðist meira hjá KR-ingum en stigahæst var Chazny Morris með sautján stig. Margrét Kara Sturludóttir skoraði fimmtán stig og Hildur Sigurðardóttir þrettán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×