Fótbolti

Bayern hefndi ófaranna frá því í úrslitaleiknum síðasta vor

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Gomez fagnar marki sínu í kvöld.
Mario Gomez fagnar marki sínu í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Mario Gomez tryggði Bayern Munchen 1-0 sigur á Inter Milan á San Siro í Meistaradeildinni í kvöld með því að skora sigurmarkið á síðustu mínútu leiksins. Það var þá farið að stefna í að það yrðu engin mörk skoruðu í tveimur leikjum kvöldsins í 16 liða úrslitunum keppninnar því Marseille og Manchester United gerðu markalaust jafntefli í Frakklandi.

Bayern Munchen tapaði 0-2 fyrir Inter Milan í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Santiago Bernabeu síðasta vor en tókst að hefna sín í kvöld. Mario Gomez skoraði eina markið á 90. mínútu þegar hann fylgdi á eftir skoti Arjen Robben sem átti mjög góðan leik í kvöld.

Inter Milan fengu þó færin til þess að skora í þessum leik og leikurinn var mjög fjörgugur þrátt fyrir að aðeins eitt mark hafi verið skorað. Arjen Robben átti meðal annars skot í stöng í byrjun seinni hálfleiks.

Það var hinsvegar lítið að gerast í bitlausum sóknarleik hjá bæði Marseille og Manchester United á Stade Velodrome í Marseille og liðin voru aldrei líkleg til þess að skora í þessum leik.

Wayne Rooney og Dimitar Berbatov voru saman í framlínu United en komust ekki mikið áleiðis í þessum leik þar sem United-liðið hugsaði fyrst og fremst um að verja sitt mark. Marseille tók meiri áhættu í seinni hálfleiknum en komst lítið áfram gegn þéttum leik United.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×