Fótbolti

Markvörður Inter labbaði heim eftir Bayern-leikinn í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bayern-menn fagna sigurmarkinu í gær.
Bayern-menn fagna sigurmarkinu í gær. Mynd/AP
Julio Cesar, markvörður ítalska liðsins Inter Milan, var mjög svekktur út í sjálfan sig eftir 0-1 tap á móti Bayern Munchen í Meistaradeildinni í gær. Bayern skoraði sigurmarkið á 90. mínútu eftir að brasilíski markvörðurinn hafði misst frá sér skot frá Hollendingnum Arjen Robben.

Ítalskir fjölmiðlar skýrðu frá því í dag að Julio Cesar hafi skilið bílinn sinn eftir í bílageymslunni á San Siro og labbað heim til sín sem var reyndar ekki löng leið. Áður hafði hann beðið stuðningsmenn og liðsfélaga sína afsökunar á mistökum sínum.

Massimo Moratti, forseti Inter, varði sinn mann í viðtölum við blaðamenn. „Það geta allir átt slæmt kvöld. Julio Cesar hefur framkvæmt svo mörg kraftaverk fyrir okkur í gegnum tíðina," sagði Moratti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×