Körfubolti

Snæfellingar rúlluðu Haukum upp og náðu 4 stiga forskoti á toppnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálmi Freyr Sigurgeirsson.
Pálmi Freyr Sigurgeirsson. Mynd/Daníel
Snæfell náði fjögurra stiga forskot á toppi Iceland Express deildar karla eftir 42 stiga stórsigur á Haukum, 119-77, í Stykkishólmi í kvöld. Snæfell hefur unnið alla tíu heimaleiki sína í deildinni í vetur og sigurinn í kvöld var aldrei í hættu. Snæfell hefur fjögurra stiga forskot á KR sem á leik inni á móti Tindastól á Sauðárkróki á morgun.

Sean Burton fór á kostum í kvöld og var með 29 stig, 11 stoðsendingar og 7 fráköst en Pálmi Freyr Sigurgeirsson skoraði 15 af 20 stigum sínum í fyrri hálfleik og var atkvæðamestur Hólmara á meðan þetta var einhver leikur. Ryan Amaroso lék sinn fyrsta leik síðan 17. janúar og var með 22 stig á 17 mínútum.

Gerald Robinson og Semaj Inge voru sem fyrr langatkvæðamestir hjá Haukum, Robinson var með 24 stig og 11 fráköst en Inge skoraði 22 stig.

Það var ljóst frá upphafi í hvað stefndi. Snæfell vann fyrsta leikhlutann 28-16 og var komið með 24 stiga forskot í hálfleik, 56-32. Munurinn á liðunum var síðan orðin 28 stig, 83-55, fyrir lokaleikhlutann og í þeim fjórða komu Íslandsmeistararnir muninum síðan upp í 42 stig.

Snæfell vann þarna sinn fjórða leik í röð en Haukarnir hafa verið að gefa eftir því strákarnir hans Péturs Ingvarssonar hafa tapað síðustu þremur leikjum sínum í deildinni og féllu að auki út úr undanúrslitum bikarsins.

 

Snæfell-Haukar 119-77 (28-16, 28-16, 27-23, 36-22)

Stig Snæfells: Sean Burton 29/7 fráköst/11 stoðsendingar, Ryan Amaroso 21, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 20/4 fráköst/5 stoðsendingar, Jón Ólafur Jónsson 14/4 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 9, Atli Rafn Hreinsson 6, Zeljko Bojovic 6/9 fráköst, Sveinn Arnar Davíðsson 5/12 fráköst/7 stoðsendingar, Egill Egilsson 5, Hlynur Hreinsson 2, Daníel A. Kazmi 2.

Stig Hauka: Gerald  Robinson 24/11 fráköst, Semaj Inge 22/4 fráköst/5 stoðsendingar, Emil Barja 8/4 fráköst, Davíð Páll Hermannsson 8, Sveinn Ómar Sveinsson 8, Haukur Óskarsson 3, Sigurður Þór Einarsson 2, Guðmundur Darri Sigurðsson 2.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×