Handbolti

Sturla: Þetta er stórkostlegt

Henry Birgir Gunnarsson í Laugardalshöll skrifar
Sturla Ásgeirsson, fyrirliði Vals, brosti út að eyrum eftir að Valur hafði tryggt sér bikarmeistaratitil karla í handknattleik í dag. Þetta var fyrsti stóri titill Sturlu í meistaraflokki.

"Tilfinningin er æðisleg. Þetta var frábært. Það hefur verið erfitt hjá okkur í deildinni í vetur en við höfum verið sterkir í bikarnum og þetta er bara stórkostlegt," sagði Sturla í sæluvímu en hvað lagði grunninn að þessum sigri að hans mati?

"Liðsandinn. Við gerðum þetta jafnt og þétt. Vorum skynsamir og áttum aðeins meira inni en þeir í lokin. Þetta er ekki flókin uppskrift.

"Það kom smá krísa á tímabili en sem betur fer þá þraukuðum við og skoruðum síðustu mörkin," sagði Sturla og bætti við hans lið hefði mætt til leiks með mikið sjálfstraust.

"Við höfðum trú á þessu allan tímann og við vitum að ef við spilum okkar bolta þá erum við helvíti góðir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×