Erlent

Vilja fá dómsmál fellt niður

Mótmæli í Madríd Spænskir fréttaljósmyndarar halda á lofti myndum af Cuoso í spænska þinginu.nordicphotos/AFP
Mótmæli í Madríd Spænskir fréttaljósmyndarar halda á lofti myndum af Cuoso í spænska þinginu.nordicphotos/AFP

„Eitt af helstu viðfangsefnum bandaríska sendiráðsins í Madríd undanfarin sjö ár hefur verið að reyna að fá fellt niður sakamál gegn þremur bandarískum hermönnum, sem sakaðir eru um að hafa drepið spænskan sjónvarpstökumann,“ segir spænska dagblaðið El Pais, sem hefur upplýsingar um þetta úr leyniskjölum bandarísku utanríkisþjónustunnar.

Þetta er eitt af fjölmörgum málum, sem fjölmiðlar hafa fjallað um eftir að leyniskjölin tóku að birtast á vefsíðunni Wikileaks.

Bandarísku hermennirnir þrír, Thomas Gibson, Philip Wolford og Philip de Camp, hafa verið ákærðir á Spáni fyrir að hafa drepið myndatökumanninn José Cuoso í Bagdad 8. apríl árið 2003, þar sem hann var að fjalla um Íraksstríðið, sem þá var nýhafið.

Cuoso var þá staddur á Palestínuhótelinu þegar skotið var á hótelið úr bandarískum skriðdrekum. Annar myndatökumaður, Taras Protsyuk frá Úkraínu, lét þar einnig lífið þennan dag.

Samkvæmt leyniskjölunum hafa bandarískir stjórnarerindrekar og embættismenn átt fjölmarga fundi um málið undanfarin ár með spænskum ráðamönnum og reynt ítrekað að fá það fellt niður. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×