Fótbolti

Sir Alex: Rooney að verða betri með hverjum leik

Elvar Geir Magnússon skrifar
Wayne Rooney og Jeremy Mathieu berjast um boltann í kvöld.
Wayne Rooney og Jeremy Mathieu berjast um boltann í kvöld.

Manchester United tók toppsætið í sínum riðli í Meistaradeildinni eftir 1-1 jafntefli gegn Valencia í kvöld. Sir Alex Ferguson eyddi flestum sínum kröftum eftir leik í að hrósa sóknarmanninum Wayne Rooney sem sé enn betur að finna taktinn með hverjum leiknum.

„Hann gerði aftur mjög vel í kvöld," sagði Sir Alex í samtali við Sky. „Hann dreifði boltanum frábærlega, sýndi gríðarlega vinnusemi og var til fyrirmyndar. Hann er aftur að finna sitt besta form og er að gera það hratt."

Einnig hrósaði Ferguson samvinnu Rooney og Dimitars Berbatov. „Þeir geta spilað frábærlega saman og það sást á köflum í þessum leik. Þeir náðu kannski ekki eins vel saman og gegn Blackburn en Berba hefði vel getað skorað önnur fimm mörk í kvöld en var óheppinn."

Rooney er ánægður með sína frammistöðu þó hann segist enn eiga nokkuð í land. „Mér finnst ég vera í ágætu formi. Ég þarf að finna meiri skerpu fyrir framan markið en á heildina litið er ég ánægður með mitt framlag í kvöld."

Rio Ferdinand fór meiddur af velli í kvöld en Sir Alex telur að meiðslin séu ekki alvarleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×