Íslenski boltinn

Valdi boltann yfir útskriftina og útskriftamyndin tekin eftir sigur á KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Útskriftarmyndin hennar Elínborgar.
Útskriftarmyndin hennar Elínborgar. Mynd/Heimasíða Grindavíkur
Elínborg Ingvarsdóttir, íþróttakona Grindavíkur 2009 og leikmaður með kvennaliði félagsins í Pepsi-deildinni, útskrifaðist sem stúdent á laugardaginn.

Á heimasíðu Grindavíkur kemur fram að í stað hárra hæla í útskriftinni hafi þessi öflugi miðjumaður reimt á sig takkaskóna og hjálpað Grindavíkurliðinu til að vinna 1-0 sigur á KR.

Þetta var fyrsta tap KR í sumar og jafnframt fyrsti sigur Grindavíkur sem hafði reyndar náð jafntefli á móti Þór/KA.

Tveir leikmenn KR-liðsins völdu hinsvegar útskriftina yfir leikinn. Berglind Bjarnadóttir og Mist Edvardsdóttir voru að útskrifast úr Verzlunarskólanum. Berglind missti af leiknum en Mist náði hinsvegar seinni hálfleik en þá var Grindavík komið í 1-0.

„Útskriftarmyndin hennar Elínborgar var því tekin á vellinum í faðmi liðsfélagana sem kunnu að meta fornfýsi hennar," sagði í myndatexta við myndina á heimasíðu Grindavíkur en hún fylgir einnig með þessari frétt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×