Erlent

Lengd fingra segir til um áhættuna

Handþvottur Hlutfallsleg lengd fingra er sögð ráðast af magni hormóna í móðurkviði.Fréttablaðið/GVA
Handþvottur Hlutfallsleg lengd fingra er sögð ráðast af magni hormóna í móðurkviði.Fréttablaðið/GVA

Lengd fingra karla getur gefið vísbendingu um hversu hætt þeim er við að fá krabbamein í blöðruhálskirtil. Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá því að þetta megi lesa úr nýrri rannsókn sem birt var í læknaritinu British Journal of Cancer Study.

Rannsóknin leiddi í ljós að karlar sem eru þannig vaxnir að vísifingur þeirra er lengri en baugfingurinn séu mun ólíklegri til að fá krabbamein í blöðruhálskirtil.

Niðurstaða rannsóknarinnar var fengin með því að bera saman hendur fimmtán hundruð sjúklinga með krabbamein í blöðruhálskirtli og þrjú þúsund heilbrigðra karla.

Fram kemur í umfjöllun BBC að lengd fingra sé fastsett fyrir fæðingu og talið að hún tengist magni hormóna í móðurkviði.

Minna magn testósteróns fyrir fæðingu gerir það að verkum að vísifingur verður lengri og getur um leið orðið til þess að líkaminn myndar síður krabbamein í blöðruhálskirtli síðar á ævinni, segja aðstandendur rannsóknarinnar við Warwick-háskóla og Stofnun krabbameinsrannsókna í Bretlandi.

Prófessor Ros Eeles, einn höfunda rannsóknarinnar, sagði niðurstöðuna kalla á frekari rannsóknir, en yrðu þær staðfestar þá myndi fingramæling geta orðið einföld mæling á krabbameinshættu.- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×