Körfubolti

Ekki víst að LeBron taki börnin með á völlinn í Cleveland

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Nordic Photos/Getty Images

Það eru margir NBA-aðdáendur farnir að telja niður fyrir næstu viku því þá snýr LeBron James aftur til Cleveland en hann yfirgaf herbúðir félagsins eins og frægt er orðið síðasta sumar og gekk í raðir Miami Heat.

Það er líklega ekki verið að taka of stórt upp í sig með því að halda fram að James sé hataður í borginni í kjölfarið.

Forráðamenn Cleveland eru þegar farnir að undirbúa "heimkomuna" en öryggisgæsla verður hert verulega á leiknum. Starfsmenn munu einnig labba um salinn meðan á leik stendur og fjarlægja sérstaklega móðgandi skilti.

"Auðvitað sættum við okkur ekki við of mikinn dónaskap, það eru börn líka á staðnum. Við ætlum samt ekki að vera eins og Gestapó," sagði hinn skrautlegi eigandi Cleveland, Dan Gilbert.

James getur ekki neitað því að hann sé þegar farinn að hugsa um leikinn.

"Hvernig er annað hægt? Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég er að fara í óvinveitt umhverfi. Það verður hátt spennustigið og mikil læti þarna," sagði James og bætti við.

"Ég hef engar áhyggjur af öryggisgæslunni. Þetta er góð deild og það er alltaf passað upp á að bæði leikmönnum og áhorfendum líði vel."

Á þeim sjö árum sem James lék með Cleveland voru vinir hans og fjölskylda dugleg að mæta á völlinn. Þar á meðal synir hans tveir sem nú búa í Akron með unnustu James. James hefur ekki ákveðið hvort hann taki þá með á völlinn.

"Það væri líklega skynsamlegt að biðja vini og ættingja að halda sig fjarri. Það gæti samt verið erfitt því allir vilja sjá leikinn. Við sjáum hvað setur," sagði James.









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×