Gagnrýni

Nútíma pennavinir

Jón Yngvi Jóhannsson skrifar
Bækur

Geislaþræðir

Sigríður Pétursdóttir

Bréfaskáldsögur eru því sem næst jafngamlar skáldsagnaforminu sjálfu. Á gullöld sendibréfanna voru skrifaðar ótal skáldsögur sem samanstóðu eingöngu af sendibréfum milli persónanna þar sem atburðum, tilfinningum og hugsunum var miðlað í persónulegum skrifum frá einni sögupersónu til annarrar. Á allra síðustu árum hefur bréfaskáldsagan gengið í endurnýjun lífdaga með tölvupóstinum og jafnvel hafa orðið til heilu skáldsögurnar sem eingöngu felast í sms-skilaboðum milli persóna. Nýjar leiðir til samskipta bjóða upp á nýja tjáningarmöguleika. Tölvupósturinn gerir fólki kleift að skrifast á hratt, bregðast við skeytum samstundis, jafnvel á milli heimsálfa. Þótt það sé lítt rannsakað má fullyrða að stíll tölvupósta er ólíkur stíl sendibréfa, hann er óhátíðlegri, bæði hjá ungum og gömlum.

Fyrsta bók Sigríðar Pétursdóttur er safn smásagna sem allar felast í tölvupóstsamskiptum ólíkra persóna. Flestar sagnanna eiga það sameiginlegt að persónurnar þekkjast ekki þegar skeytasendingar hefjast. Hér skrifast á íslensk unglingsstúlka og áströlsk amma, miðaldra íslensk kona sem vinnur við tölvur og ungur sænsk-indverskur kollegi hennar og í lengstu sögunni, sem bókin þiggur nafn sitt af, skrifast á ensk kona og íslensk sem báðar hafa átt í sambandi við sama karlmann. Sú saga spannar heilan áratug í lífi persónanna og við fylgjumst með þeim þróast í stuttum skeytum, stundum með löngu millibili. Þrátt fyrir að sagan sé stutt er sögð í henni löng saga og þráðurinn milli persónanna tveggja slitnar aldrei þótt maður óttist stundum að hann sé að verða bláþráðóttur rétt eins og þráðurinn milli lesanda og sögunnar.

Sögurnar í Geislaþráðum eru sögur af "venjulegu" fólki sem þarf að kljást við vandamál í einkalífinu. Í sumum sagnanna þurfa persónurnar að glíma við óvæntar aðstæður í samtímanum, aðrar snúast fremur um óvæntar uppljóstranir úr fortíðinni. Sögurnar í Geislaþráðum eru misgrípandi, í þeim bestu, eins og titilsögunni, tekst að skapa persónum sannfærandi rödd og láta hinn tiltölulega knappa texta tölvupóstanna gefa í skyn undirtexta sem er flóknari og margræðari. Aðrar sagnanna, til dæmis sú síðasta, Blúndur og búsáhöld, eru ekki jafn vel heppnaðar, þar lifna persónurnar aldrei almennilega til lífsins.

Í Geislaþráðum tala margar persónur eða skrifa öllu heldur. Það er mikill vandi að láta hverja þeirra hljóma sannfærandi og sérstaka auk þess sem það er erfiðara en halda mætti að líkja eftir málsniði tölvupósta. Langoftast tekst Sigríði þetta vel. Á stöku stað verður stíllinn svolítið bóklegur og stífur en oftast flæðir textinn ágætlega og líkir eftir því óhátíðlega máli sem flestir skrifa í tölvupóstum.

Niðurstaða: Bestu sögurnar í þessu smásagnasafni draga upp hnyttnar og áhugaverðar myndir af persónum og aðstæðum í nútímanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×