Innlent

Alls ellefu óhöpp á sex vikum

á hlemmi Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS, hélt stutt erindi þegar öryggisdögum Strætó og VÍS lauk.
á hlemmi Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS, hélt stutt erindi þegar öryggisdögum Strætó og VÍS lauk.

Alls urðu ellefu óhöpp á síðustu sex vikum sem tengd voru ferðum strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu. Að meðaltali verða um tuttugu óhöpp á mánuði hjá Strætó bs. yfir vetrarmánuðina.

Öryggisdögum Strætó og VÍS lauk formlega á sunnudag, en þeir stóðu yfir í sex vikur, frá 18. októ­ber til 28. nóvember. Markmið átaksins var fyrst og fremst að vekja vegfarendur til umhugsunar um umferðaröryggi en að auki ætluðu strætisvagnabílstjórar að reyna að gera betur í akstri en á sama tímabili í fyrra. Þá urðu 28 óhöpp frá miðjum október fram til nóvemberloka.

Í tilkynningu frá Strætó bs. segir að markmiðið hafi náðst örugglega í ljósi þess að einungis hafi ellefu óhöpp orðið. Þó hafi eitt alvarlegt slys orðið meðan á Öryggisdögunum stóð, því ekið var á gangandi vegfaranda síðastliðinn laugardag og hlaut hann innvortis meiðsli. Annars voru flest atvikin minni háttar.

„Ég harma öll óhöpp og slys í umferðinni og auðvitað eru ellefu óhöpp á þessu tímabili ellefu óhöppum of mikið,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs. „En meðan við erum að fækka slysum jafnt og þétt er ekki annað hægt en að gleðjast yfir því.“- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×