Fótbolti

Barcelona skoraði fimm á fyrstu 37 mínútunum og vann 8-0

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Barcelona fagna einu af átta mörkum sínum í kvöld.
Leikmenn Barcelona fagna einu af átta mörkum sínum í kvöld. Mynd/AP
Barcelona komst í efsta sætið í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir 8-0 stórsigur á Almería á útivelli en Real Madrid getur endurheimt efsta sætið seinna í kvöld.

Lionel Messi skoraði þrennu í leiknum þar af tvö af fimm mörkum Barca á fyrstu 37 mínútum leiksins en Argentínumaðurinn lagði einnig upp tvö mörk til viðbótar.

Lionel Messi skoraði fyrsta markið á 17. mínútu eftir sendingu frá David Villa, Andrés Iniesta kom Barca í 2-0 tveimur mínútum síðan og þriðja markið var síðan sjálfsmark leikmanns Almería á 27. mínútu.

Pedro Rodriguez kom Barcelona í 4-0 á 35. mínútu og Messi skoraði síðan sitt annað mark og fimmta mark Barca á 37. mínútu. Þannig var staðan í hálfleik.

Andrés Iniesta og Xavi voru teknir útaf í hálfleik og Pep Guardiola gat leyft sér að hvíla þá fyrir komandi átök í Meistaradeildinni í vikunni.

Bojan kom inn á sem varamaður fyrir Pedro á 56. mínútu og skoraði sjötta markið sex mínútum síðar. Messi innsiglaði síðan þrennuna sína þegar hann fylgdi á eftir skoti David Villa á 67. mínútu.

Bojan skoraði síðan áttunda markið á 73. mínútu en bæði mörkin hans komu eftir stoðsendingar frá Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×