Erlent

Norður-Kórea hætti við árás

Seúl Íbúar Suður-Kóreu mótmæltu í Seúl í gær.nordicphotos/afp
Seúl Íbúar Suður-Kóreu mótmæltu í Seúl í gær.nordicphotos/afp

Norður-Kóreumenn ætla ekki að svara heræfingu suður-kóreska hersins á eyjunni Yeonpyeong í gær. Áður höfðu yfirvöld í Norður-Kóreu hótað að bregðast við æfingunni af hörku.

Norður-Kóreumenn sögðu æfingar Suður-Kóreumanna vera hernaðarlega ögrun. Ríkisfjölmiðlar í norðrinu höfðu eftir hernum að æfingarnar væru ekki þess virði að við þeim yrði brugðist.

Síðast þegar svipaðar heræfingar stóðu yfir á eyjunni gerðu Norður-Kóreumenn árás á hana. Þá létust fjórir og tugir slösuðust. Fjöldi húsa varð eldi að bráð. Flestir íbúar eyjarinnar hafa nú flúið hana.

Kínverjar og Rússar hvöttu í gær bæði ríkin til að forðast vopnuð átök. Viðræðum í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna var hætt um helgina eftir að Kínverjar neituðu að samþykkja yfirlýsingu þar sem Norður-Kóreumenn voru gagnrýndir.

Bill Richardson, ríkisstjóri í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum, er staddur í Norður-Kóreu. Hann hefur rætt við æðstu yfirmenn hersins þar og reynt að miðla málum.

Fréttastofan CNN segir Norður-Kóreumenn hafa sagt Richardson að þeir myndu hleypa kjarnorkueftirlitsmönnum frá SÞ aftur inn í landið, en þetta hefur ekki verið staðfest.- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×