Enski boltinn

Sápuópera sumarsins verður í kringum Cesc Fabregas

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Fabregas óskar þess heitast að ganga til liðs við Barcelona í sumar.
Fabregas óskar þess heitast að ganga til liðs við Barcelona í sumar. GettyImages

Hvert sumar fara orðrómar á fullt vegna knattspyrnumanna í Evrópu sem eru að færa sig um set. Yfirleitt er einn maður sem er hvað lengst í sviðsljósinu vegna þessa og í sumar verður það líklega Cesc Fabregas.

Í fyrra var það Cristiano Ronaldo en nú er það Barcelona og Cesc.

Fabregas hefur tilkynnt Arsene Wenger að hann vilji fara frá Arsenal til Barcelona sem ætlar að selja Yaya Toure í staðinn. Orðrómur um að Wenger hafi hringt í Fabregas þar sem hann er í æfingabúðum með spænska landsliðinu til að fá hann til að vera áfram gengur um.

Forsetakosningar verða þann 13. júní í Barcelona, um sama leiti og HM byrjar. Ef Fabregas skrifar ekki undir fyrir það þarf samningurinn að bíða, ef hann verður undirritaður eins og allt bendir til.

En Barcelona hefur ekki enn lagt inn tilboð í Fabregas. "Það er rétt að leikmaðurinn hefur sagt að hann vilji spila fyrir Barca, kannski á næsta tímabili. Við erum búnir að hafa samband við Arsenal þar sem við óskuðum eftir viðræðum og þannig er staðan núna," sagði Joan Oliver, framkvæmdastjóri hjá Barcelona.

"Við erum ekki að drífa okkur og maður veit aldrei hversu langan tíma svona tekur," sagði þolinmóður Oliver.

Pabbi Fabregas, sem heitir einmitt Francesc líka, segir að sonur sinn muni pottþétt spila fyrir Barcelona á næstu leiktíð. "Arsenal verður að virða ákvörðun hans. Samningaviðræðurnar verða mjög langar við Barcelona," sagði Cesc Fabregas, faðir Cesc Fabregas, leikmanns Arsenal eins og staðan er í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×