Innlent

Rauði krossinn minnir á hjálparsímann

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Rauði kross Íslands vill vekja athygli á að Hjálparsími Rauða krossins 1717 gegnir hlutverki upplýsingasíma fyrir almenning þegar náttúruhamfarir verða.

Fólki er því bent á að hringja í Hjálparsímann 1717 til að nálgast almennar upplýsingar og til að spyrjast fyrir um afdrif skyldmenna og vina á hættusvæðinu. Þá er heimafólki sem ekki er á svæðinu eða nær ekki að komast í fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins bent á að hringja í 1717 til að tilkynna um dvalarstað sinn.

Í fréttatilkynningu frá Rauða krossinum segir að um 100 sjálfboðaliðar starfi við Hjálparsímann 1717, sem er gjaldfrjáls og opinn allan sólarhringinn. Þeir hafi fengið sérstaka þjálfun í upplýsingasöfnun og upplýsingaveitu þegar hamfarir dynja yfir.

Eins sé Hjálparsíminn mikilvægur hlekkur í skráningu Rauða krossins þegar rýma þurfi svæði, og liggja þar allar upplýsingar jafnóðum fyrir um þá sem hafa gefið sig fram í fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins á hættusvæðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×