Körfubolti

Stuðningsmenn Cleveland létu LeBron James heyra það - myndband

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar

LeBron James, leikmaður Miami Heat, var aðalfréttaefnið í NBA deildinni í gær þegar hann fór í fyrsta sinn á gamla heimavöllinn í Cleveland eftir umdeild félagaskipti hans s.l. sumar. Í myndbandinu fyrir er samantekt frá leiknum í gær þegar LeBron James kom inn á keppnisvöllinn og sjón er sögu ríkari.

Stuðningsmenn Cleveland hafa á undanförnum fimm mánuðum beðið eftir „sætri hefnd" gegn James sem var elskaður og dáður í borginni í þau sjö ár sem hann lék með liðinu. James er aðeins 25 ára gamall en hann var valinn fyrstur allra í háskólavalinu árið 2003 þegar hann var 19 ára gamall.

James er langt frá því að vera enn elskaður og dáður af stuðningsmönnum Cleveland og það fór ekki framhjá neinum í gær þegar Miami mætti til leiks í Cleveland.

Ilgauskas fékk hrós en baulað var á James
Žydrūnas Ilgauskas og LeBron James sitja hér á varamannabekknum gegn Cleveland í gær.AP

Žydrūnas Ilgauskas, fyrrum leikmaður Cleveland, sem er núna í röðum Miami Heat fékk góðar móttökur og klöppuðu stuðingsmenn Cleveland fyrir honum í leikmannakynningunni. Ilgauskas, sem er 2.20 m. hár miðherji frá Litháen lék í 12 ár með Cleveland en hann var látinn fara frá félaginu á síðasta tímabili í leikmannaskiptum.

LeBron James sýndi andlegan styrk sinn með því að skora 38 stig í 118-90 sigri Miami og þar af skoraði hann 24 stig í þriðja leikhluta.

„Stuðningsmenn Cleveland voru ekki á mínum lista fyrir leikinn, ég ber of mikla virðingu fyrir þeim. Það heyrðist einnig vel í leikmönnum Cleveland á varamannabekknum og mér leiddist það ekki. Ég naut þess að spila gegn gömlu félögunum en ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun að yfirgefa Cleveland. Ég er sáttur við lífið og tilveruna," sagði LeBron James í gær.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×