Gagnrýni

Endalaus hjá ÍD: fimm stjörnur

Unun er að horfa á sýningu Íslenska dansflokksins, Endalaus.
Unun er að horfa á sýningu Íslenska dansflokksins, Endalaus.

 

Listdans *****

Endalaus

Íslenski dansflokkurinn

Dans og textahöfundur: Alan Lucien Öyen. Tónlist: Ólafur Arnalds. Ljós: Aðalsteinn Sigurðsson. Búningar: Elín Edda Árnadóttir. Dansarar: Aðalheiður Halldórsdóttir, Cameron Corbett, Guðmundur Elías Knudsen, Hannes Þór Egilsson, Hjördís Lilja Örnólfsdóttir, Katrín Á. Johnson, Katrín Ingvadóttir, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, Steve Lorenz.

Er ástin spurning um orð eða framkvæmd? Eitthvað á þessa leið hafa þau spurt sig, ungu listamennirnir úr Íslenska dansflokknum sem settu saman sýninguna Endalaus sem nú er verið að sýna í Borgarleikhúsinu. Ástin getur verið frasi, leiður frasi, sjálfsagður hlutur, hversdagslegt hjal eða ofasfengin upplifun. Að dansa og á sama tíma sýna grafík á veggjum sem verður til um leið og orð og hreyfingar auk undirliggjandi og stundum ögrandi tónlistar blossar upp, er það sem við fáum að sjá. Liðugir líkamar sem segja sögur og sveigjast eftir höggum andstæðinga á fiman og flinkan máta.

Höfundar sýningarinnar eru þeir Alan Lucien Öyen og Ólafur Arnalds. Alan Lucien Öyen hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir verk sín. Hann er danshöfundur frá Noregi sem leggur áherslu á ríkar tilfinningar og ljóðrænu í verkum sínum. Handritið er alfarið hans, en dansarar tala hér jöfnum höndum og gerir það verkið aðgengilegra kannski þeim sem óvanir eru hreinræktuðum dansi. Að vísu er hér talað á ensku, en hún er svo skýr þessi enska að allir ættu að skilja.

Ólafur Arnalds semur tónlistina og hefur hann getið sér gott orð fyrir verk sín bæði í samvinnu við Sigur Rós og eins einn og sér. Hann blandar saman klassík og poppi og hér er hann svolítið eintóna en um leið ögrandi og tónarnir eiga mjög vel við undirliggjandi erfiðleika fólks sem komið er í kastþröng tilfinninga og orðasamskipta. Sófaborðið er á milli okkar eða kemur upp á milli okkar, eitthvað á þá leið mælir ein kona, og samtímis birtist sófaborð reyndar með öðrum húsgögnum teiknað snilldarlega á vegg og urgandi tónlist fylgir með. Þetta er sýning sem unun er að því að horfa á sama hvort heldur er ísmeygilegur dans eða smart grafík.

Dansararnir voru hver öðrum betri og skemmtilegt að sjá hversu margbreytilegur hópurinn er, það eru greinilega ekki stærðarstaðlar í þessum dansflokki, allt í lagi að vera lítill og fínt að vera stór. Einstök atriði báru af eins og samskipti hjóna sem greinilega eru búin með kvótann í sínu samlífi og barátta upp á líf og dauða er sýnt á ofurfiman hátt af líkömum sem virtust breytast í gúmmí og almennt notkunin á rýminu sem stækkaði upp í allsherjar flæði og niður í smæstu kompur með töfrum ljósanna. Góð sýning fyrir alla.

Elísabet Brekkan

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×