Skoðun

Svavar Gestsson: Eins og Indefence – og fleiri

Alþingi fjallar nú um frumvarp formanna stjórnmálaflokkanna um fjármögnun flokkanna. Það er gott. Þess sér stað í kosningabarátunni að minna er um auglýsingar en áður - a.m.k. enn sem komið er. Allt er það á sínum stað. Það er stórkostleg framför sérstaklega frá þeim tíma þegar frambjóðendur sama flokks gengu fyrir dyr bankastjóra eins og bónbjargarmenn - ekki til að taka lán heldur til þess að sníkja peninga í kosningabaráttuna á móti félögum sínum.

Þannig var oft staðið að framboðum, meðal annars að fyrsta framboði Samfylkingarinnar 1999. Það var slæmt. Enginn spurði þá hver borgaði; aðalspennan var sú hversu margir hefðu tekið þátt í prófkjörinu.

Fjölmiðlar sinntu ekki þessu eftirlitshlutverki sínu því miður.

En nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um fjármál stjórnmálaflokkanna. Og allir fagna því; einnig þeir sem söfnuðu hæstum upphæðum. Það er vel; það er til marks um nýja tíma.

En það er líka til marks um nýja tíma að flokkarnir eru ekki einu áhrifavaldarnir í stjórnmálum. Það sem kallað er þrýstihópar getur skipt miklu máli. Dæmi um það er Indefence-hópurinn. Þar er mikið af góðu og heiðarlegu fólki og það fólk vill örugglega að gerð verði grein fyrir fjármálum Indefence - það hefur kannski verið gert? Það minnir á að lögin um fjármál stjórnmálaflokka og framboða mega ekki aðeins ná til þeirra sem bjóða fram til forseta, Alþingis og sveitarstjórna. Það þarf líka að ná til þrýstihópa sem ég vildi eiginlega frekar kalla til dæmis áhrifasamtök eða eitthvað þess háttar. Undirskriftasöfnun Indefence hafði mikil áhrif fyrr í vetur, a.m.k. á forsetann. Þess vegna er brýnt að frumvarpið sem Alþingi fjallar um taki til allra sem beita sér gagngert fyrir því að hafa áhrif á skoðanir almennings. Eins og Indefence. Og fleiri.




Skoðun

Sjá meira


×