Körfubolti

Ray Allen: Það er pláss fyrir Shaq í Boston-liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þríeykið í Boston.
Þríeykið í Boston. Mynd/Getty Images
Ray Allen segir að það sé pláss í Boston liðinu fyrir Shaquille O'Neal sem skrifaði undir tveggja ára samning við Celtics-liðið í síðustu viku. Margir líta á komandi vetur sem síðasta tækifærið fyrir Boston-liðið að vinna NBA-meistaratitilinn með þríeykið Paul Pierce, Kevin Garnett og Allen í fararbroddi en þeir unnu saman titilinn árið 2008.

„Þetta er mjög áhugavert að mínu mati og ég er viss um að Shaq geti hjálpað okkur. Við höfum verið í vandræðum með fráköstin í bæði vörn og sókn og Shaq er með stóran skrokk og ætti að geta hjálpað okkur þar," sagði Ray Allen.

Ray Allen var ekki viss um að koma aftur til Boston eftir tapið á móti Los Angeles Lakers í lokaúrslitum í júní og segir góðan vin sinn hafa meira að segja verið að senda honum íbúðir sem voru til sölu í Miami.

„Það þurftu allir að hreinsa hugann. Um leið og allt róaðist á ný þá sáum við allir sem einn að við erum enn með mjög gott lið og við vildum ekki gefa þetta tækifæri frá okkur," sagði Allen.

Ray Allen segir að það verði mjög erfitt fyrir Miami Heat að spila með alla þessa pressu á sér en það búast allir við að LeBron James og Dwyane Wade vinni titilinn eftir að þeir ákváðu að spila saman.

„Það var mjög erfitt fyrir okkur að spila árið 2008 þegar allir voru að spá okkur titlinum frá fyrsta degi," sagði Allen.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×