Íslenski boltinn

Umfjöllun: Fylkisstelpur að komast á beinu brautina

Stefán Pálsson skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. Mynd/Valli
Fylkir vann í kvöld góðan 2-1 sigur á Þór/KA á heimavelli með mörkum þeirra Fjólu Dröfn Friðriksdóttur og Önnu Bjargar Björnsdóttur. Danka Podovac svaraði fyrir Þór/KA en það dugði ekki til.

Fyrir leiki kvöldsins munaði aðeins einu stigi á liðunum en Þór/KA var í þriðja sæti Pepsi-deildar kvenna með sjö stig og Fylkir í því sjötta með sex stig. Hvorugt liðið hafði því efni á að misstíga sig. Þessi lið áttust við í einum af bestu leikjum síðasta sumars en þá voru alls skoruð sex mörk í leiknum sem lauk með 3-3 jafntefli á Akureyri.

Mikil rigning skall á um leið og Guðmundur Ársæll Guðmundsson dómari flautaði til leiks og áttu stúlkurnar erfitt með að fóta sig fyrstu mínúturnar. Leikurinn fór rólega af stað og bæði liðin virtust ekki finna taktinn enda voru aðstæður fremur erfiðar.

Fylkisstúlkur byrjuðu leikinn mun betur og það virtist sem Þór/KA væru enn að jafna sig frá tapleiknum gegn Val í síðustu umferð. Fyrsta mark leiksins kom á 19. mínútu, en þá kom frábær fyrirgjöf frá Lovísu Erlingsdóttur beint á kollinn á Fjólu Dröfn Friðriksdóttur sem skallaði boltann í netið.

Fylkisstúlkur hresstust mikið við markið. Eftir að hafa tekið öll völd á vellinum þá náðu þær að komast 2-0 yfir nokkrum mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks. Þá var Fjóla Dröfn aftur mætt og átti hún frábæra sendingu inn fyrir vörn Þór/KA þar sem Anna Björg var ein á auðum sjó og skoraði virkilega flott skallamark.

Aðeins tveimur mínútum eftir að Fylkisstúlkur skoruðu fengu gestirnir aukaspyrnu rétt fyrir utan markteig Fylkis. Podavac gerði sér lítið fyrir og þrumaði boltanum beint í netið. Skotið var óverjandi fyrir markvörð Fylkis. Fátt annað markvert gerðist í fyrri hálfleik og staðan því 2-1 þegar stúlkurnar gengu til búningsherbergja.

Í síðari hálfleik bökkuðu Fylkisstúlkur mikið til baka og það var greinilegt að markmiðið var að halda fengnum hlut. Gestirnir ætluðu sér á köflum að skora tvö mörk í hverri sókn og fóru oft illa með góða stöðu.

Fyrsta og eina skot Þór/KA í síðari hálfleik kom ekki fyrr enn á 75. mínútu leiksins. Þá skaut Danka Podovac beint úr aukaspyrnu en í þetta skipti varði Björk Björnsdóttir vel í Fylkismarkinu.

Sigur Fylkis var í raun aldrei í hættu enda náðu gestirnir ekki að skapa sér nein fmarktækifæri í síðari hálfleiknum og því fór sem fór. Niðurstaðan 2-1 sigur heimastúlkna og þær þá komnar í þriðja sæti Pepsi-deildar kvenna með níu stig. Þór/KA hefur aftur á móti tapað síðustu tveimur leikjum sínum og eru aðeins með sex stig eftir annars fína byrjun á tímabilinu.

Fylkir- Þór/KA 2-1

1-0 Fjóla Dröfn Friðriksdóttir (19.)

2-0 Anna Björg Björnsdóttir ( 38.)

2-1 Danka Podovac (40.)

Áhorfendur: 150

Dómari: Guðmundur Ársæll Guðmundsson.

Skot (á mark): 7-13 (5-4)

Varin skot: Berglind 4 - Björk 4

Horn: 4-6

Aukaspyrnur fengnar: 6-12

Rangstöður: 3-0






Fleiri fréttir

Sjá meira


×