Lífið

Benedikt leikstýrir sér í Íslandsklukkunni

Benedikt leikstýrir og leikur í Íslandsklukkunni í Þjóðleikhúsinu í vetur.
Benedikt leikstýrir og leikur í Íslandsklukkunni í Þjóðleikhúsinu í vetur.

„Það verður mjög áhugavert að geta staðið á sviðinu á móti mótleikara og sagt honum til," segir Benedikt Erlingsson, sem leysir Björn Hlyn Haraldsson af hólmi í hlutverki Arnasar Arneuss í Íslandsklukkunni í Þjóðleikhúsinu.

Björn Hlynur er á leiðinni til London með Vesturporti vegna sýningarinnar Faust og mun Benedikt, sem er einnig leikstjóri Íslandsklukkunnar, hlaupa í skarðið fyrir hann í fimm vikur.

„Það verður hækkað miðaverð á þessum sýningum," segir Benedikt og glottir.

Fleiri breytingar verða á leikaraliðinu í Íslandsklukkunni því Brynhildur Guðjónsdóttir tekur við af Ilmi Kristjánsdóttur sem Jón Grindvíkingur þar sem Ilmur er að fara leika í Fólkinu í kjallaranum í Borgarleikhúsinu. Ólafur Egill Ólafsson tekur við af Stefáni Halli Stefánssyni og Jóhannes Haukur leysir Ólaf Darra Ólafsson af hólmi.

„Með fullri virðingu fyrir gömlu leikurunum finnst mér leikaraliðið sem tekur við miklu betra. Það er hneyksli að þetta skuli ekki hafa verið svona frá byrjun," segir Benedikt.

Björn Hlynur leikur Arnas Arneuss fyrstu vikuna eftir að sýningar hefjast en síðan tekur Benedikt við keflinu í lok september. Benedikt hefur aldrei áður leikstýrt mótleikara sínum og segir það í raun bannað í leikhúsi. Þrátt fyrir það óttast hann enga árekstra á sýningunum.

„Ég er eiginlega búinn að leikstýra þeim í þessu. Ég fæ ekki mikið að segja við leikarana lengur. Nú verð ég bara að standa mig. Það er frekar að þeir horfi á mig tortryggnir og hæðnir með spurnarsvip í augunum:

'Ætlarðu virkilega að leika þetta svona?'."

Íslandsklukkan hlaut fern Grímuverðlaun í júní síðastliðnum. Þar af hlutu Ingvar E. Sigurðsson og Björn Thors hvor sína styttuna. -fb










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.