Innlent

Staða ríkisstjórnarinnar veikst að mati doktors í stjórnmálafræði

Staða ríkisstjórnarinnar hefur veikst verulega að mati Stefaníu Óskarsdóttur, doktor í stjórnmálafræði, sem var í spjalli í Íslandi í dag eftir fréttir í kvöld. Þar var farið yfir pólitíska stöðu ríkisstjórnarinnar eftir að nýr Icesave-samningur náðist við Breta og Hollendinga í vikunni.

„Icesave hefur verið erfitt mál og vandræðalegt fyrir ríkisstjórnina," sagði Stefanía en þjóðin felldi síðasta Icesave-samning í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Stefanía segir að eftir það hafi ríkisstjórnin ekki getað setið með hendur í skauti, sem og hún gerði ekki, því hún reyndi að þétta í röðum sínum með því að taka Ögmund Jónasson aftur inn í ríkisstjórn sem ráðherra.

„Ríkisstjórnin veiktist það mikið í kjölfarið að hún varð að bregðast við þessu," segir Stefanía um eftirleik þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Hún segir málflutning ríkisstjórnarinnar hafa verið slíkan að hún kenndi Sjálfstæðisflokknum mikið um það hvernig fór og því spyr hún hver á að taka heiðurinn af nýjum og mun betri samningi:

„Getur ríkisstjórnin tekið heiðurinn fyrir það eða stjórnarandstaðan og síðar forseti Íslands?" spyr Stefanía.

Hún telur það einnig veikleikamerki ríkisstjórnarinnar hvernig hún hefur talað undanfarið um að fara hægt í sakirnar. Það sé ekki í anda þess sem hún gerði áður þegar hún hafði hraðar hendur á, til að mynda við að samþykkja Icesave-samninginn hinn fyrri.

„Þetta endurspeglar stöðu ríkisstjórnarinnar," segir Stefanía sem þykir viðbrögðin vera veikleikamerki.

Stefanía segir mikilvægt fyrir ríkisstjórnina að ná víðtækri sátt um samninginn. Það verður til þess að gera forsetanum erfiðara um vik að fara gegn þingmeirihlutanum líkt og hann gerði í byrjun janúar síðastliðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×