Bakþankar

Jólatré, piparkökur og næstum 520 ástæður í viðbót til að kjósa ekki

Brynhildur Björnsdóttir skrifar

Nú er liðin næstum því vika síðan fyrsta laugardag í aðventu bar upp á síðasta laugardag í nóvember. Þennan laugardag var kveikt á jólatrjám í Kringlunni og Smáralind og á Ráðhústorginu á Akureyri. Jólaþorpið í Hafnarfirði var einnig opnað með mikilli viðhöfn og jólamarkaður haldinn í Bjarkarási. Skógrækt Reykjavíkur opnaði sinn árlega jólamarkað og jólatrjáasölu í Heiðmörk.

Margir tónlistarskólar völdu þennan dag til að halda jólatónleika þar sem tónlistarmenn framtíðarinnar spreyttu sig fyrir framan áheyrendur með tilheyrandi undirbúningi og taugatitringi. Stórmót Tennissambandsins var haldið og Íslenski fjallahjólaklúbburinn hjólaði til Álftavatns. Rithöfundar lásu upp úr bókum sínum víðsvegar um land, tónlistarmenn árituðu verk sín og fluttu valin sýnishorn , kórar sungu og lúðrasveitir léku.

Fyrir utan það þá er þetta árstíminn þegar margir eru lasnir og þá er ótalið að yfir skólafólki á öllum aldri vofa prófin með tilheyrandi undirbúningi og verkefnaskilum til kennara sem líka stefna á að eiga aðventu með fjölskyldum sínum.

Jólaföndur,kökubasarar, laufabrauðsskurður, brjóstsykursgerð, danssýningar, leikrit, fimleikamót, hjólabrettamót, aðventukransagerð og piparkökuskreytingar voru í næstum hverjum einasta leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili. Það var semsagt nóg að gera. Og, alveg rétt: svo var kosið til stjórnlagaþings og tveir af hverjum þremur atkvæðisbærum einstaklingum á landinu mættu ekki.

Það er kannski engin afsökun í heiminum fyrir að kjósa ekki alltaf þegar það er í boði. Kosningaréttur er ekki sjálfsagður heldur forréttindi og allir eiga að kjósa þegar þeir mega það. Mér fannst hinsvegar athyglisvert sem ég las einhversstaðar að meirihluti kjósenda hefði verið yfir meðalaldri, semsagt að barna- og skólafólk hefði mætt verst.

Á þessum árstíma hefur fólk í ofangreindum hópum ekki mikinn tíma til að leggjast í rannsóknir á því hver af 522 er bestur til að skrifa nýja stjórnarskrá. Hversdagslífið hefur yfirhöndina, og það fer ofar í forgangsröðina að þvo ballettsokkabuxurnar og skipuleggja foreldrafélagskökubasarinn, svona fyrir utan allt hitt sem felst í daglegum heimilisrekstri.

Svo má ekki gleyma þeirri áherslu sem lögð var á að gefa sér rúman tíma til að kjósa því að gera mætti ráð fyrir töluverðri bið á kjörstað og tuttugu mínútum inni í kjörklefanum.

Ég held að dræm þátttaka í kosningunum á laugardaginn hafi ekkert endilega stafað af leti, áhugaleysi eða verið ætlað að lýsa frati á eitt eða neitt. Þetta var bara vondur dagur. Næst þegar við kjósum skulum við gera það í febrúar.








×