Körfubolti

Miami valtaði yfir Lakers - Orlando á siglingu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Jólastórleikur NBA-deildarinnar stóð ekki undir væntingum þar sem Miami vann fyrirhafnarlítinn sigur á slöku liði LA Lakers. Kobe Bryant frumsýndi nýja, eiturgræna skó í leiknum sem einhverjir félaga hans notuðu líka en það virkaði ekki því leikmenn Lakers virtust vera með hugann við jólahaldið heima hjá sér.

LeBron James mætti aftur á móti mjög beittur til leiks og landaði þrefaldri tvennu. Var með 27 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar. Chris Bosh var með 24 stig og 13 fráköst og Dwyane Wade skilaði 18 stigum og 6 stoðsendingum.

Kobe og Pau Gasol voru báðir með 17 stig hjá Lakers en besti maður liðsins var Lamar Odom með 14 stig og 9 fráköst.

Það er einhver smá krísa hjá Lakers því liðið lét Milwaukee einnig niðurlægja sig á heimavelli fyrir nokkrum dögum síðan.

"Ég held að þessir leikir skipti andstæðinga okkar meira máli. Ég er ekki hrifinn af því," sagði Kobe svekktur í leikslok. "Við erum alltaf lélegir á jólunum. Við erum ekki nógu grimmir í þessum jólaleikjum."







Orlando Magic er að spila mjög vel eftir að hafa fengið til sín nýja leikmenn. Tveim dögum eftir að liðið batt enda á tíu leikja sigurgöngu San Antonio Spurs gerði liðið sér lítið fyrir og lagði Boston sem var búið að vinna 14 leiki í röð.

Lokakaflinn var ótrúlegur en hann vann Orlando, 15-1.

Það er búið að vera meiðslavesen á Boston og liðið virkaði afar þreytt þegar mest á reyndi í leiknum.

"Ég veit ekki hvort meiðslin séu farin að há okkur en menn virkuðu samt vissulega þreyttir. Við erum samt ekkert að fara að væla," sagði Doc Rivers, þjálfari Boston.

Úrslit næturinnar:

LA Lakers-Miami 96-80

NY Knicks-Chicago 103-95

Orlando-Boston 86-78

Oklahoma-Denver 114-106

Golden State-Portland 109-102








Fleiri fréttir

Sjá meira


×