Erlent

Kínverjar hvetja til sex ríkja viðræðna

Choe Song-Il Norður-kóreskur hermaður í viðtali við vestræna fjölmiðla.fréttablaðið/AP
Choe Song-Il Norður-kóreskur hermaður í viðtali við vestræna fjölmiðla.fréttablaðið/AP

„Ég veit að það varð mannfall sunnanmegin,“ sagði Choe Song-il, norðurkóreskur hermaður sem fenginn var til að fylgja fréttamönnum til þorpsins Panmunjom á hlutlausa landsvæðinu milli Norður- og Suður-Kóreu.

„Ég vona að aldrei aftur komi til hernaðarátaka af þessu tagi milli norðurs og suðurs.“

Sáttatónninn í orðum hans stakk nokkuð í stúf við harðorðar yfirlýsingar norðurkóreskra stjórnvalda undanfarið, sem hafa hótað stríði verði Suður-Kórea með hernaðartilburði af hvaða tagi sem er á landi eða hafsvæði því sem Norður-Kórea gerir tilkall til.

Sameiginlegar heræfingar Bandaríkjanna og Suður-Kóreu hafa verið sunnar í hafinu. Norður-Kóreumenn hafa harðlega gagnrýnt þessar heræfingar, þótt þær hafi einkum snúist um að prófa samskiptakerfi og engum skotum hafi verið hleypt af.

Kínastjórn hvetur nú til þess að sex ríkja viðræður hefjist að nýju um að Norður-Kórea fái eldsneyti og aðstoð í skiptum fyrir kjarnorkuafvopnun. Norður-Kórea hefur áður gripið til hernaðaraðgerða og hótana, en látið af þeim þegar viðræður um aðstoð hefjast.

Bandaríkjamenn, Suður-Kórea og Japan, sem hafa tekið þátt í viðræðum ríkjanna sex ásamt Norður-Kóreu, Kína og Rússlandi, hafa þó verið treg til að fallast á viðræður að þessu sinni.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×