Að missa spón úr aski sínum Óli Kristján Ármannsson skrifar 3. mars 2010 06:00 Bændasamtökin leggjast gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þetta gera þau áður en fyrir liggur aðildarsamningur til að leggja fyrir þjóðina. Í ræðu sinni á Búnaðarþingi benti Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, á að ef ekki væri fyrir landbúnað hér þyrfti að flytja inn erlendar landbúnaðarvörur fyrir 100 milljónir króna á degi hverjum. Vandséð er af hverju formanninum þykir tilefni til að draga upp slíkt dæmi, nema hann óttist að landbúnaður leggist hér af. Auðvitað væri fáránlegt að gefa sér að innganga Íslands í Evrópusambandið fæli í sér dauðann fyrir íslenskan landbúnað. Nær væri að ætla að uppstokkun á meingölluðu hafta- og styrkjakerfi sem hér hefur verið byggt upp verði landbúnaðinum lyftistöng og drifkraftur umbóta. Í þeim efnum gætu íslenskir bændur horft til reynslu Finna. Núna er staðan þannig að miklar hömlur eru á innflutningi á landbúnaðarvörum og skattfé rennur í stríðum straumi til styrktar landbúnaði. Um leið eru bændur ekkert of sælir af því sem í þeirra hlut kemur og verð á landbúnaðarvörum er hátt. Hvaða hagsmuna er verið að gæta með varðstöðu um þetta kerfi? Ef til vill þarf ekki að koma á óvart að forsvarsmaður hagsmunasamtaka sem samkvæmt fjárlagavef ríkisins fá á árinu í sinn hlut 667,5 milljónir króna finni því allt til foráttu að raska því kerfi. Í því ljósi er vert að skoða afstöðu Bændasamtakanna til Evrópusambandsins og tilmæla í greiningarskýrslu framkvæmdastjórnar ESB vegna aðildarumsóknar Íslands. Í greiningarskýrslunni eru raunar gerðar athugasemdir við að Bændasamtökunum sé falin stjórnsýsla landbúnaðarmála. Þannig sé Bændasamtökunum meðal annars ætlað það hlutverk að greiða ríkisstyrki til einstakra bænda. Þá sé öll tölfræði um íslenskan landbúnað vanþróuð og byggi í mörgum tilfellum á áætluðum stærðum fremur en rauntölum. Mælst er til þess að hér verði komið upp upplýsingakerfi fyrir móttakendur landbúnaðarstyrkja undir sameiginlegri stjórn og tryggt að árlega verði birtar upplýsingar um styrkþega. Bent er á að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið sé of veikburða til að sinna stjórnsýslu landbúnaðarmála. Hagsmunasamtökin virðast hafa bæði töglin og hagldirnar. Það er alveg ljós að komi til inngöngu í Evrópusambandið þá kallar það á uppstokkun á ríkjandi fyrirkomulagi. Ef hins vegar á að láta þá dæma um ágæti breytinganna sem sjá fram á að missa við þær spón úr aski sínum er hætt við að hér verði lítil framþróun. Nær væri að taka mark á ábendingum um úrbætur, hvort sem þær snúa að landbúnaði, eflingu sjálfstæðis dómsstóla með breytingum á verklagi við skipan dómara, eða öðrum þáttum. Einangrunarhyggja og ótti við breytingar kann ekki góðri lukku að stýra. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Óli Kr. Ármannsson Mest lesið 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun
Bændasamtökin leggjast gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þetta gera þau áður en fyrir liggur aðildarsamningur til að leggja fyrir þjóðina. Í ræðu sinni á Búnaðarþingi benti Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, á að ef ekki væri fyrir landbúnað hér þyrfti að flytja inn erlendar landbúnaðarvörur fyrir 100 milljónir króna á degi hverjum. Vandséð er af hverju formanninum þykir tilefni til að draga upp slíkt dæmi, nema hann óttist að landbúnaður leggist hér af. Auðvitað væri fáránlegt að gefa sér að innganga Íslands í Evrópusambandið fæli í sér dauðann fyrir íslenskan landbúnað. Nær væri að ætla að uppstokkun á meingölluðu hafta- og styrkjakerfi sem hér hefur verið byggt upp verði landbúnaðinum lyftistöng og drifkraftur umbóta. Í þeim efnum gætu íslenskir bændur horft til reynslu Finna. Núna er staðan þannig að miklar hömlur eru á innflutningi á landbúnaðarvörum og skattfé rennur í stríðum straumi til styrktar landbúnaði. Um leið eru bændur ekkert of sælir af því sem í þeirra hlut kemur og verð á landbúnaðarvörum er hátt. Hvaða hagsmuna er verið að gæta með varðstöðu um þetta kerfi? Ef til vill þarf ekki að koma á óvart að forsvarsmaður hagsmunasamtaka sem samkvæmt fjárlagavef ríkisins fá á árinu í sinn hlut 667,5 milljónir króna finni því allt til foráttu að raska því kerfi. Í því ljósi er vert að skoða afstöðu Bændasamtakanna til Evrópusambandsins og tilmæla í greiningarskýrslu framkvæmdastjórnar ESB vegna aðildarumsóknar Íslands. Í greiningarskýrslunni eru raunar gerðar athugasemdir við að Bændasamtökunum sé falin stjórnsýsla landbúnaðarmála. Þannig sé Bændasamtökunum meðal annars ætlað það hlutverk að greiða ríkisstyrki til einstakra bænda. Þá sé öll tölfræði um íslenskan landbúnað vanþróuð og byggi í mörgum tilfellum á áætluðum stærðum fremur en rauntölum. Mælst er til þess að hér verði komið upp upplýsingakerfi fyrir móttakendur landbúnaðarstyrkja undir sameiginlegri stjórn og tryggt að árlega verði birtar upplýsingar um styrkþega. Bent er á að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið sé of veikburða til að sinna stjórnsýslu landbúnaðarmála. Hagsmunasamtökin virðast hafa bæði töglin og hagldirnar. Það er alveg ljós að komi til inngöngu í Evrópusambandið þá kallar það á uppstokkun á ríkjandi fyrirkomulagi. Ef hins vegar á að láta þá dæma um ágæti breytinganna sem sjá fram á að missa við þær spón úr aski sínum er hætt við að hér verði lítil framþróun. Nær væri að taka mark á ábendingum um úrbætur, hvort sem þær snúa að landbúnaði, eflingu sjálfstæðis dómsstóla með breytingum á verklagi við skipan dómara, eða öðrum þáttum. Einangrunarhyggja og ótti við breytingar kann ekki góðri lukku að stýra.