Körfubolti

NBA: Lakers tapaði fyrsta heimaleiknum - sjö í röð hjá Spurs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Nash skorar hér á móti Lakers í nótt.
Steve Nash skorar hér á móti Lakers í nótt. Mynd/AP
Phoenix Suns skoraði 22 þriggja stiga körfur og varð fyrsta liðið til þess að vinna NBA-meistara Los Angeles Lakers á heimavelli þeirra í Staples Center í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. San Antonio Spurs vann jafnframt sinn sjöunda leik í röð með útisigri í Oklahoma City.

Phoenix Suns hitti úr 22 af 40 þriggja stiga skotum sínum þegar liðið vann 121-116 sigur á Los Angeles Lakers í LA. Phoenix var aðeins einum þristi frá því að jafna NBA-met Orlando Magic frá því fyrir tveimur árum.

Jason Richardson skoraði 34 stig og Steve Nash var með 21 stig og 13 stoðsendingar fyrir Phoenix. Pau Gasol var með 28 stig og 17 fráköst fyrir Lakers og Kobe Bryant skoraði 25 stig og gaf 14 stoðsendingar en það dugði ekki til.

Matt Bonner hitti úr öllum 7 þriggja stiga skotum sínum þegar San Antonio Spurs vann 117-104 sigur á Oklahoma City Thunder á útivelli en þetta var sjöundi sigurleikur Spurs-liðsins í röð.

Bonner skoraði alls 21 stig í leiknum en Tony Parker var stigahæstur með 24 stig og Manu Ginobili bar með 21 stig. Það kom ekki að sök að Tim Duncan var aðeins með 6 stig og 4 fráköst í leiknum. Kevin Durant skoraði 23 stig fyrir Thunder.

New York Knicks tapaði sínum fimmta leik í röð þegar liðið lá fyrir Houston Rocktes. Kevin Martin skoraði 28 stig fyrir Houston og Luis Scola var með 24 stig en Amare Stoudemire var með 25 stig hjá New York.

Úrslit leikjanna í NBA-deildinni í nótt:

Atlanta Hawks-Minnesota Timberwolves 111-105

Sacramento Kings-Detroit Pistons 94-100

Oklahoma City Thunder-San Antonio Spurs 104-117

New York Knicks-Houston Rockets 96-104

Los Angeles Lakers-Phoenix Suns 116-121



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×