Erlent

Handteknir vegna gruns um hryðjuverk

Í stoke Lögreglukona fer inn í eitt húsanna sem leitað var í í borginni Stoke vegna meintu hryðjuverkamannanna í gær. nordicphotos/afp
Í stoke Lögreglukona fer inn í eitt húsanna sem leitað var í í borginni Stoke vegna meintu hryðjuverkamannanna í gær. nordicphotos/afp

Tólf menn voru handteknir í Bretlandi snemma morguns í gær. Mennirnir eru grunaðir um að hafa skipulagt hryðjuverkaárásir í landinu.

Mennirnir eru á aldrinum 17 til 28 ára, fimm eru frá Cardiff, fjórir frá Stoke og þrír frá London. Fregnir herma að einhverjir hinna handteknu séu frá Bangladess. Allir voru þeir handteknir á eða við heimili sín, nema einn sem var handtekinn í Birmingham. Þeir voru handteknir af óvopnuðum lögreglumönnum, sem þykir benda til þess að ekki hafi verið talið líklegt að mennirnir myndu fremja árásir á næstunni.

Lögregla hefur litlar upplýsingar gefið um málið og segir rannsókn þess á frumstigi. Fylgst hafði verið með mönnunum í nokkrar vikur og í tilkynningu kemur fram að nauðsynlegt hafi verið talið fyrir þjóðaröryggi að handtaka mennina nú.

Ekki er talið að þeir tengist hryðjuverkaárásinni í Stokkhólmi fyrir skemmstu, en árásarmaðurinn hafði búið í Englandi. Í kjölfar þeirrar árásar var því haldið fram að al Kaída stæði fyrir mörgum árásum á evrópsk og bandarísk skotmörk í kringum jólin. Þessu hafa yfirvöld í Bretlandi og Þýskalandi hafnað.

- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×