Fótbolti

Schweinsteiger: Vil frekar vinna Meistaradeildina með Bayern en Real

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bastian Schweinsteiger.
Bastian Schweinsteiger. Mynd/AP
Bastian Schweinsteiger, miðjumaður Bayern Munchen og þýska landsliðsins, hefur verið orðaður við mörg stórlið í Evrópu að undanförnu en eyddi öllum vangaveltum í gær með því að skrifa undir nýjan samning við þýska liðið sem gildir til ársins 2016.

Real Madrid, Inter Milan, Manchester United og Chelsea höfðu öll áhuga á að fá þennan 26 ára miðjumann til sín en hann ætlar að spila næstu sex árin með þýsku meisturunum.

„Ég tel að við séum með góðan hóp hér. Mitt hjarta er rautt og ég vil frekar vinna Meistaradeildina með Bayern en með Real," sagði Bastian Schweinsteiger í gær.

Schweini, eins og hann er kallaður, sá til þess að Þjóðverjar söknuðu ekkert Michael Ballack á HM í Suður-Afríku síðasta sumar. Hann hefur blómstrað undir stjórn Louis van Gaal hjá Bayern.

Bayern hefur verið að framlengja samninga við leikmenn sína að undanförnu en þeir Franck Ribery, Philipp Lahm, Thomas Mueller og Holger Badstuber eru allir búnir að skrifa undir samninga til ársins 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×