Körfubolti

NBA í nótt: Ginobili aftur hetja San Antonio

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Manu Ginobili í leiknum í nótt.
Manu Ginobili í leiknum í nótt. Mynd/AP

Manu Ginobili er sjóðandi heitur með liði San Antonio í NBA-deildinni í körfubolta um þessar mundir.

Á miðvikudaginn tryggði hann liðinu sigur á Milwaukee og í nótt gerði hann slíkt hið sama er San Antonio vann Denver, 113-112.

Þetta var sjöundi sigur San Antonio í röð og um leið náði liðið að binda enda á tíu leikja sigurgöngu Denver.

San Antonio var á góðri leið með klúðra ágætri forystu í fjórða leikhluta en liðið var með þriggja stiga forystu þegar átta sekúndur voru til leiksloka.

Carmelo Anthony náði þá að skora og minnka muninn í eitt stig og svo stela boltanum strax aftur þegar að San Antonio var að koma boltanum aftur í leik. Þar með kom hann Denver yfir, 112-111.

En Ginobili kom San Antonio aftur yfir þegar fjórar sekúndur voru eftir, 113-112, og fiskaði svo ruðning á Anthony sem náði að skora áður en leiktíminn rann út. Karfan var hins vegar dæmd ógild vegna ruðningsins.

Tim Duncan átti frábæran leik og skoraði 28 stig og tók sextán fráköst. Tony Parker var með 24 stig og níu stoðsendingar og Ginobili sextán.

Hjá Denver var Anthony stigahæstur með 31 stig og Arron Affalo kom næstur með 20.

Boston vann Atlanta, 102-90. Kevin Garnett var með sautján stig og fjórtán fráköst fyrir Boston sem vann sinn tíunda sigur í röð.

Paul Pierce var með fimmtán stig og tíu stoðsendingar og Glen Davis var með átján stig og tíu fráköst. Ray Allen var einnig með átján stig.

New Jersey vann Washington, 97-89, og batt þar með enda á átta leikja taphrinu liðsins. Devin Harris skoraði 29 stig fyrir New Jersey.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×