Innlent

Þarf að koma atvinnulífinu af stað

Sigmundur Ernir Rúnarsson
Sigmundur Ernir Rúnarsson

„Það er ekki síður þörf á raunsæi en rómantík," segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sem hefur tekið undir ósk þingmanna Sjálfstæðisflokks um að umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra komi á fund iðnaðarnefndar til að ræða áform ríkisstjórnarinnar um stækkun friðlands í Þjórsárverum.

Þeirra áforma er getið í stjórnarsáttmálanum. Verði þau að veruleika yrðu hugmyndir um Norðlingaveitu úr sögunni, en veitan er einn þeirra kosta sem nú eru efstir á blaði til orkuöflunar, miðað við fyrirliggjandi hugmyndir um rammaáætlun um nýtingu og verndun vatnsafls og jarðvarma. Norðlingaveita er ekki ný virkjun heldur veita sem eykur framleiðslu virkjana í ofanverðri Þjórsá.

Sigmundur Ernir segist telja að þingnefndir eigi að vera virkari í störfum en þær hafa verið. Tilefni sé til að fá sérfræðinga á fund nefndarinnar, auk ráðherranna, til þess að ganga úr skugga um hvort stækkun friðlandsins þurfi að hafa áhrif á Norðlingaveitu.

„Ég vil sjá það svart á hvítu," segir hann. „Á sama tíma og það er mikilvægt að vernda land í margvíslegum tilgangi þá þarf líka að hafa í huga að koma atvinnulífinu af stað."

Iðnaðarnefnd fundar í dag. Skúli Helgason, formaður nefndarinnar, var erlendis í gær og ekki lá fyrir hvort málið yrði til meðferðar hjá nefndinni í dag. - pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×