Erlent

Skógareyðing ekki minni í 22 ár

Brunninn regnskógur Ársgömul mynd af brunnum skógi í ólöglegri landnemabyggð í norðurhluta Brasilíu.Nordicphotos/AFP
Brunninn regnskógur Ársgömul mynd af brunnum skógi í ólöglegri landnemabyggð í norðurhluta Brasilíu.Nordicphotos/AFP

Eyðing Amazon-regnskógarins hefur ekki verið hægari í 22 ár, að því er fram kemur í gögnum frá ríkisstjórn Brasilíu.

Izabella Teixeira, umhverfisráðherra Brasilíu, segir gervihnattamyndir sýna eyðingu skóga sem nemi 6.450 ferkílómetrum frá því í ágúst 2009 til júlí 2010. Það mun vera fjórtán prósentum minni skógareyðing en ári fyrr. Skekkjumörk í mælingunni eru þó nokkur, eða tíu prósent.

Geimrannsóknastofnunin sem tók myndirnar segir í tilkynningu að eyðing skóganna hafi ekki verið minni frá árinu 1988.

„Skógareyðingin hefur ekki verið minni í sögu Amazon og við erum staðföst í þeirri viðleitni okkar að draga enn frekar úr henni,“ sagði Teixeira í gær á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem fram fer í Cancun í Mexíkó.

Á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC er eftir henni haft að nýju tölurnar séu „frábærar“. Teixeira segir stjórnvöld í Brasilíu stefna að því að ná skógareyðingu Amazon-regnskógarins niður í 5.000 ferkílómetra á ári fyrir árið 2017.

Árangurinn sem nýju loftmyndirnar sýna segja brasilísk stjórnvöld að megi þakka átaki í að framfylgja umhverfislöggjöf landsins.- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×