Erlent

Forseta bjargað frá lögreglu

Átök í Ekvador Forsetinn sagðist í gær ætla að sjá til þess að lögreglumönnunum verði harðlega refsað.nordicphotos/AFP
Átök í Ekvador Forsetinn sagðist í gær ætla að sjá til þess að lögreglumönnunum verði harðlega refsað.nordicphotos/AFP

Umsátursástand ríkti í Ekvador í gær eftir að her landsins hafði bjargað Rafael Correa forseta af sjúkrahúsi, þar sem hópur lögreglumanna hafði umkringt hann og haldið honum föngnum í tólf klukkustundir.

Correa hafði verið fluttur á sjúkrahúsið eftir að hafa nærri kafnað af völdum táragass þegar hann og stuðningsmenn hans lentu í átökum við lögreglumenn á fimmtudag. Stuðningsmenn hans höfðu kastað grjóti í áttina að lögreglumönnunum, sem brugðust við með því að beita táragasi.

Að minnsta kosti þrír menn létu lífið í átökunum, tveir hermenn og einn lögreglumaður.

Í gær voru hermenn á hverju horni að gæta þess að átök brytust ekki út.

Lögreglumennirnir sögðust vera að mótmæla nýjum lögum, sem skerða kjör opinberra starfsmanna. Correa og ráðherrar í ríkisstjórn hans sögðu lögreglumennina hins vegar hafa reynt að steypa forsetanum af stóli.

Bæði Hugo Chavez og Evo Mor­ales, forsetar Venesúela og Bólivíu, sökuðu Bandaríkin um að standa að baki lögregluuppreisninni í Ekvador.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×