Fótbolti

Ferdinand ekki með til Tyrklands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rio Ferdinand, leikmaður Manchester United.
Rio Ferdinand, leikmaður Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Rio Ferdinand mun ekki spila með Manchester United gegn tyrkneska liðinu Bursaspor í Meistaradeild Evrópu annað kvöld. Hið sama má segja um Jonny Evans.

Ferdinand spilaði allan leikinn með United gegn Tottenham um helgina og er talið að verði hvíldur að þessu sinni auk þess sem að hann sleppur við langt ferðalag.

Ferdinand hefur átt við meiðsli að stríða undanfarna mánuði og vill Alex Ferguson, stjóri United, ekki taka neinar óþarfa áhættur. Framundan hjá United eru mikilvægir leikir í ensku úrvalsdeildinni gegn Manchester City og Aston Villa.

Þar sem Jonny Evans er frá vegna meiðsla er líklegt að þeir Nemanja Vidic og Wes Brown verði miðvarðapar United í leiknum.

Federico Macheda, Wayne Wooney, Ryan Giggs og Michael Owen voru heldur ekki á meðal þeirra 20 leikmanna sem fóru til Tyrklands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×